Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025, endurskoðun
Síðast Samþykkt á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1831
4. september, 2019
Annað
Fyrirspurn
9.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 27.ágúst sl. Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 tekið til umfjöllunar. Stefna aðalskipulags er bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa. Með vísan til 35.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulag.
Skipulags- og byggingarráð samþykkir að hefja vinnu við gerð nýs aðalskipulags samkvæmt 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og byggingarráð vísar tillögunni til bæjarstjórnar til staðfestingar. Skipulags- og byggingarráð samþykkir jafnframt að skipa fimm manna starfshóp um endurskoðun aðalskipulagsins. Hópinn skipa þrír úr skipulags- og byggingarráði og tveir frá umhverfis- og skipulagsþjónustu. Nöfn fulltrúa í hópnum ásamt erindisbréfi verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.
Svar

Til máls tekur Ólafur Ingi Tómasson.

Einnig tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls og leggur fram tillögu að tryggt verði að fyrirhugaður starfshópur um endurskoðun aðalskipulagsins verði skipaður a.m.k. einum fulltrúa frá hverjum flokki sem á fulltrúa í bæjarstjórn. Ólafur Ingi Tómasson kemur til andsvars. Guðlaug svarar andsvari. Ólafur Ingi kemur til andsvars öðru sinni sem Guðlaug svarar einnig öðru sinni. Ólafur Ingi kemur þá að stuttri athugasemd og sama gerir Guðlaug.

Einnig tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Ólafur Ingi. Adda María svarar andsvari. Til andsvars öðru sinni kemur Ólafur Ingi og svarar Adda María andsvari öðru sinni. Þá kemur Jón Ingi Hákonarson til andsvars. Einnig kemur Guðlaug Kristjánsdóttir til andsvars við ræðu Öddu Maríu. Adda María svarar andsvari.

Þá tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson.

Adda María tekur til máls undir fundarsköpum.

Fundarhlé kl. 14:40

Fundi framhaldið kl. 14:43.

Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars við ræðu Öddu Maríu sem Adda María svarar.

Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls öðru sinni.

Einnig tekur Ólafur Ingi Tómasson til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu um að bæjarstjórn samþykki að starfshópur um breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar verði skipaður 5 kjörnum fulltrúum, þremur frá meirihluta og tveimur frá minnihluta. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir.

Fundarhlé 14:55

Fundi framhaldið kl. 15:07.

Ólafur Ingi dregur fyrri tillögu til baka og leggur til breytta tillögu frá því áður og er tillagan þá svohljóðandi: Bæjarstjórn samþykkir að ekki verði skipaður starfshópur um breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar heldur fari öll vinna við aðalskipulagsgerðina fram í skipulags og byggingarráði þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti.

Forseti ber næst upp framkomna tillögu Ólafs Inga. Er tillagan samþykkt með átta atkvæðum og þau Guðlaug, Adda María og Jón Ingi sitja við atkvæðagreiðsluna.

Jón Ingi gerir grein fyrir atkvæði sínu. Sem og Adda María og Guðlaug en Guðlaug leggur einnig fram svohljóðandi bókun:

Á fundi bæjarstjórnar í dag stóð til að samþykkja skipun starfshóps um endurskoðun Aðalskipulags Hafnarfjarðar. Í hópnum áttu að sitja 3 kjörnir fulltrúar, 2 frá minnihluta en 1 frá þeim 4 flokkum sem sitja í minnihluta bæjarstjórnar. Eftir talsverðar umræður um tillögu undirritaðrar um að tryggja aðkomu allra kjörinna fulltrúa bæjarbúa að slíkri langtíma- og heildstæðri stefnumótun í bæjarfélaginu, án þess að til grundvallar lægju drög að erindisbréfi hópsins, endaði með því að formaður skipulags- og byggingarráðs lagði til að slíkur hópur yrði alls ekki skipaður, heldur fari vinnan fram í skipulags- og byggingarráði.

Undirrituð situr hjá í þessari atkvæðagreiðslu, þar sem hún kom svo mjög á óvart, en ítrekar stuðning sinn við tillögu bæjarstjóra sem fram kom í umræðunum hér í dag að forsetanefnd taki til umfjöllunar fyrirkomulag við skipun starfshópa og aðkomu kjörinna fulltrúa að stefnumótandi ákvarðanatöku.

Þá gerir Ingi Tómasson einnig grein fyrir atkvæði sínu. Adda María kemur að stuttri athugasemd.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu með þeirri breytingu að tryggt verði að fyrirhugaður starfshópur um endurskoðun aðalskipulagsins verði skipaður a.m.k. einum fulltrúa frá hverjum flokki sem á fulltrúa í bæjarstjórn.

Einnig kemur Adda María að svohljóðandi bókun:

Undirrituð gerir athugasemd við málsmeðferð. Það er mikilvægt að mál séu þannig úr garði gerð að þau séu tæk til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Um það er ekki að ræða í þessu tilviki.
Adda María Jóhannsdóttir

Næst ber forseti upp þá tillögu sem liggur fyrir fundinum og er hún samþykkt samhljóða þá með þeirri áður samþykktu breytingu að ekki verði skipaður starfshópur um breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar heldur fari öll vinna við aðalskipulagsgerðina fram í skipulags og byggingarráði þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti.

Er tillagan samþykkt samhljóða.