Áheyrnafulltrúi Bæjarlistans leggur fram eftirfarandi bókun:
Bæjarfulltrúi Bæjarlistans gerir alvarlega athugasemd við þá túlkun að ekki hafi verið ágreiningur á fundi bæjarráðs þann 8. ágúst 2018, þar sem engin atkvæði hafi fallið gegn fyrirliggjandi tillögu. Á þeim fundi sat undirrituð sem atkvæðislaus bæjarfulltrúi á fundi sem þó hafði umboð bæjarstjórnar, beitti þeim úrræðum sem á mínu valdi voru, þ.e. að leggja fram tillögu um frestun og að málið yrði rætt í fullskipaðri bæjarstjórn, sem og að færa til bókar þá afstöðu sem þó var hægt að mynda sér á þeim stutta tíma sem gafst í aðdraganda fundar. Hér með er sú bókun ítrekuð í heild sinni og því mótmælt að niðurstaða atkvæðagreiðslu á fundi þar sem ekki allir hafa atkvæðisrétt sé lögð að jöfnu við niðurstöðu fundar þar sem jafnræðis gætir milli bæjarfulltrúa og allir hafa jöfn tækifæri til að tjá afstöðu sína.
Fullrúi Viðreisnar í bæjarráði leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Viðreisnar gerir athugasemd við þá fullyrðingu sem fram kemur í svarbréfi til ráðherra að öll nauðsynleg gögn hafi legið fyrir fundinum 8. ágúst. Bréf frá framleiðanda hússins var ekki lagt fram, en bréfið var forsenda þess flýtis sem málið fékk og téð fundarboð. Hins vegar var bæjarráði tjáð munnlega hvert innihaldið hafi verið. Ég var því beðinn um að taka afstöðu til málsins án þess að hafa öll nauðsynleg gögn í málinu.
Fulltrúi Samfylkingar leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Samfylkingarinnar vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri vegna umsagnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, undirritaðri af bæjarstjóra, til setts samgöngu og sveitarstjórnarráðherra varðandi kærumál vegna ákvarðana bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um framkvæmdir við knatthús í Kaplakrika.
Minnt er á að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans sem óskuðu eftir því að boðað yrði til bæjarstjórnar þann 15. ágúst 2018 eftir að fulltrúar meirihlutans höfðu keyrt málið í gegnum bæjarráð þann 8. ágúst með minnsta löglega fyrirvara á tíma sem búið var að ákveða að yrði fundarhlé vegna sumarleyfa ráðsfólks. Einnig er rétt að geta þess að einungis tveir af fjórum flokkum minnihlutans hafa atkvæðisrétt í bæjarráði og gátu því ekki allir tekið formlega afstöðu.
Í umsögninni sem liggur fyrir þessum fundi er vísað til þess að ekki hafi verið ágreiningur um málið á umræddum fundi bæjarráðs í skilningi sveitarstjórnarlaga. Öllum mátti þó vera ljós afstaða þeirra fulltrúa sem sátu fundinn og ýmist óskuðu eftir fresti á afgreiðslu eða höfðu ekki atkvæðisrétt. Sé sú málsmeðferð talin lögleg þá má hið minnsta draga sanngirni hennar og siðferði í efa.
Á fundi bæjarstjórnar þann 15. ágúst lögðu fulltrúar minnihlutans fram fyrirspurnir sem taldar voru mikilvægar til að taka upplýsta ákvörðun um málið þar sem fullnægjandi gögn lágu ekki fyrir. Þeim var ekki svarað á fundinum og því voru sömu fulltrúar jafn óupplýstir um málið þegar bæjarstjóri lagði tillöguna fram til samþykktar á ný. Við þetta voru gerðar athugasemdir og óskað eftir fresti en því var hafnað og ákvörðunin keyrð í gegn í ágreiningi öðru sinni.
Um heimildir starfshóps með framkvæmdum í Kaplakrika vísar undirrituð til erindisbréfs hópsins sem samþykkt var í bæjarráði 16. ágúst 2018. Þar kemur fram að hópurinn starfi í umboði bæjarins og sé óheimilt að stofna til kostnaðar án samþykkis ráðsins. Það er því með öllu óskiljanlegt að fulltrúar meirihlutans telji eðlilegt að greiddar hafi verið út hundruði milljóna í umboði hópsins án aðkomu bæjarráðs.
Adda María Jóhannsdóttir
Fundarhlé kl. 10:08
Fundi fram haldið kl. 10:25
Fundarhlé kl. 10:30
Fundi fram haldið kl. 10:35
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra leggja fram svohljóðandi bókun:
Vísað er til efnislegra svara við fyrirspurnum fulltrúa minnihlutans sem lögð voru fram á fundi bæjarráðs 13. september, þar sem meðal annars kemur fram að með því að stofna til kostnaðar eins og það er orðað í erindisbréfi starfshóps er átt við kaup á utanaðkomandi ráðgjöf til starfshópsins.