Útsvarsprósenta við álagningu 2019
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1816
28. nóvember, 2018
Annað
Fyrirspurn
7.liður úr fundargerð bæjarráðs 22.nóvember sl. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að útsvarsprósenta 2019 verði 14,48%. Samþykkt með fjórum atkvæðum.
Fulltrúi Samfylkingar greiðir atkvæði gegn tillögunni og leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögbundin verkefni sveitarfélaga eru fjölmörg og mikilvægt að þeim sé sinnt. Þar sem framlögð fjárhagsáætlun sýnir að ekki verði hægt að ráðast í öll þau verkefni sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir hafa fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn lagt fram tillögu um að útsvarshlutfall verði nýtt og fyrirhuguð lækkun á álagningarstofni fasteignaskatta á atvinnueignir verði endurskoðuð. Af þeim sökum samþykkir fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði ekki þessa tillögu.
Adda María Jóhannsdóttir
Svar

Til máls tekur Stefán Már Gunnlaugsson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson.

Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson. Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir.

Þá tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson.

Einnig tekur til máls Rósa Guðbjartsdóttir og kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra telja mikilvægt að álögur á einstaklinga og fyrirtæki hækki ekki og að ástæðulaust sé að halda álagningarhlutföllum í hámarki eins og fulltrúar Samfylkingar hafa lagt til. Bættur rekstur og fjárhagur Hafnarfjarðarbæjar gefur tækifæri til að halda álögum og gjöldum í lágmarki á sama tíma og þjónustan er efld á flestum sviðum, leikskólagjöld hækka ekki fimmta árið í röð, systkinaafslættir eru auknir í leikskólum og á fæðisgjöldum grunnskóla svo eitthvað sé nefnt. Umtalsverð lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts sem lögð er til í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019, og fulltrúar Samfylkingar hafa einnig gagnrýnt, er fyrst og fremst til að koma til móts við mikla hækkun á fasteignamati í Hafnarfirði. Það er mat fulltrúa meirihlutans að lægra álagningarhlutfall fasteignaskatts komi íbúum og fyrirtækjum vel, bæti aðstæður fyrirtækjanna og styðji við fjölbreytt atvinnulíf í bæjarfélaginu.

Fyrirliggjandi tillaga borin upp til atkvæða og bæjarstjórn samþykkir með 8 greiddum atkvæðum gegn 2 tillögu bæjarráðs um að útsvarsprósenta 2019 verði 14,48%. Einn bæjarfulltrúi sat hjá.