Í húsnæðisstefnu Hafnarfjarðar sem nú hefur verið lögð fram og samþykkt í bæjarráði er áhersla lögð á að íbúar hafi öruggt húsnæði hvort sem fólk þarfnast stuðnings vegna húsnæðis eða ekki. Fjölbreytt framboð þarf að vera fyrir hendi til að koma til móts við íbúa. Þetta er m.a. sett fram í samningsmarkmiðum á Hraun-Vestur svæðinu sem nú eru í vinnslu. Þá hefur Hafnarfjarðarbær nýverið veitt Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir lóðum í Hamranesi undir 152 almennar leiguíbúðir. Jafnframt hefur verið gerður samningur um byggingu 12 almennra leiguíbúða við Hádegisskarð milli sjálfseignarstofnunarinnar Skarðshlíð íbúðafélag hses. sem Hafnarfjarðarbær stofnaði og Modulus eignarhaldsfélags. Almennar leigubúðir eru ætlaðar þeim sem eru undir tekju- og eignamörkum samkvæmt lögum um almennar íbúðir.
Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:
Undirrituð fagnar því að gert sé ráð fyrir fjölbreyttu framboði af húsnæði á nýjum byggingarsvæðum. Meginmarkmið með gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi íbúa og því mikilvægt að skilgreina þörfina og bregðast við henni. Í húsnæðisstefnu sem samþykkt var á fundinum er lögð fram ákveðin sýn um uppbyggingu sem um margt endurspeglar þessar áherslur. Mikilvægt er að leggja áherslu á að gæta að því að ný byggingarsvæði og þéttingarsvæði verði skilgreind í skipulagsskilmálum með tilliti til blandaðrar byggðar sem svari fjölbreyttum þörfum íbúa.
Adda María Jóhannsdóttir