Fyrirspurn
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Umhverfis- og skipulagsþjónustu er falið að búa til verklagsreglur til að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni framkvæmda allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Á þetta við um allar þær framkvæmdir sem Hafnarfjarðarkaupstaður mun ráðast í og gildir þar einu hvort framkvæmdin verði að hluta til eða að öllu leyti í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Greinargerð
Hafnarfjarðarkaupstaður notar mikla fjármuni bæjarbúa á ári hverju í hin ýmsu fjárfestingaverkefni. Þar má nefna götur, göngustíga, byggingar, skóla og svo framvegis. Mikilvægt er tryggja að opinberar framkvæmdir standist allar áætlanir. Umræðan um framúrkeyrslu opinberra framkvæmda hefur farið hátt undanfarnar vikur og mánuði. Dæmi eru um að hér á landi fari framkvæmdir jafnvel tugi prósenta fram úr áætlun þegar kemur að kostnaði og á þetta á líka við um framkvæmdatíma sem verður oft lengri en gert var ráð fyrir í upphafi. Hér þurfa bæði sveitarfélög og ríki að styrkja betur stjórnsýsluna í undirbúningi og stjórnun framkvæmda. Sérfræðingar hafa bent á að íslenskt regluverk og vinnubrögð standi talsvert að baki því sem þekkist í öðrum þróuðum ríkjum og greina þurfi betur óvissu og áhættu í öllum áætlunum sem gerðar eru í upphafi. Markmiðið með þessari tillögu er því að tryggja faglega umgjörð og að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir þegar ráðist er í umfangsmikilar og kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er því mikilvægt að hér í Hafnarfirði liggi fyrir skýrar verklagsreglur þegar ráðist er í framkvæmdir og gildir þar einu hvort framkvæmdin verði að hluta til eða öllu leyti í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar.