Uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 6 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1819
23. janúar, 2019
Annað
Fyrirspurn
Til umræðu.
Svar

Til máls tekur Adda María Jóhannsdóttir. Kristín Thoroddsen kemur til andsvars.

Adda María kemur að svohljóðandi bókun:

"Með afgreiðslu fræðsluráðs þann 16. janúar sl. var enn einni tillögu Samfylkingarinnar um uppbyggingu á leikskóla í skólahverfi Öldutúnsskóla hafnað. Þar með er útséð um að nýr leikskóli verði byggður í hverfinu á þessu kjörtímabili, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir leikskóla í gildandi deiliskipulagi við Öldugötu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lagt fram tillögur um að ráðist verði í uppbyggingu á leikskóla í hverfinu allt frá því að Kató var lokað vorið 2016, en án árangurs. Engu að síður er vöntunin öllum ljós og hefur komið fram svart á hvítu í minnisblaði frá fræðsluþjónustu.
Ákalli um uppbyggingu leikskóla í hverfinu hefur verið svarað af hálfu meirihlutans með tillögum um stækkun á leikskólanum Smáralundi um tvær deildir, sem samsvarar um 50 plássum. Engu er skeytt um það að Smáralundur er í öðru skólahverfi, auk þess sem 50 pláss leysa ekki nema hálfan vanda íbúa í Öldutúnsskólahverfi þar sem vantar yfir 100 pláss.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra hafa haldið þeim málflutningi á lofti að Hafnarfjörður sé eitt leikskólasvæði og á þeim forsendum sé foreldrum ungra barna í þessu hverfi ekkert of gott að keyra börn sín í leikskóla í önnur hverfi bæjarins. Þessu erum við í Samfylkingunni ekki sammála. Við teljum leikskóla vera mikilvæga þjónustu sem tryggja eigi íbúum innan hverfa. Íbúar í skólahverfi Öldutúnsskóla bera skarðan hlut frá borði þegar kemur að leikskólaþjónustu og ekki er útlit fyrir að sú staða bætist mikið á næstu árum.

Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson"