Ásvellir, Haukasvæði, breyting á Aðalskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 5 árum síðan.
Skipulags- og byggingarráð nr. 693
14. janúar, 2020
Annað
Fyrirspurn
Á fundi bæjarstjórnar þann 18. september 2019 var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs "Skipulags og byggingarráð samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa framlagða aðalskipulagbreytingu í samræmi við 30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010" staðfest. Í breytingunni felst að breyta landnotkunarskilgreiningu úr íþróttasvæði í íbúðarsvæði. Breytingartillagan var auglýst frá 27. sept. til 4. nóvember 2019. Engar athugsemdir bárust. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 13. nóvember 2019 aðalskipulagsbreytingarnar og að málsmeðferð skuli lokið í samræmi við 32.gr. skipulagslaga. Lögð fram athugasemd Skipulagsstofnunar.
Svar

Fulltrúi Samfylkingarinnar vekur athygli á athugasemdum sem koma fram í bréfi Skipulagsstofnunar varðandi breytingu á aðalskipulagi Ásvalla. Enn og aftur gerir meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sig seka um óvönduð vinnubrögð sem mun tefja nauðsynlega uppbyggingu á Ásvöllum s.s. íbúða og byggingu knatthúss fyrir Knattspyrnufélag Hauka sem löngu er búið að gefa loforð fyrir.

Hlé gert á fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra bóka: Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur í vinnu sinni leitað allra leiða, í góðu samráði við íþróttafélög bæjarfélagsins, til að halda áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja. Hluti þeirrar vinnu var að breyta aðalskipulagi fyrir íþróttasvæði Hauka. Þar skilaði Knattspyrnufélagið Haukar hluta af landi sínu til bæjarins sem nú er verið að skipuleggja sem íbúabyggð. Þeir fjármunir sem koma inn vegna þessa munu fara í uppbyggingu á knatthúsi að Ásvöllum, en fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað lagst gegn því. Athugasemdir Skipulagsstofnunar munu ekki tefja málið né hafa áhrif á fyrirætlanir meirihlutans og íþróttafélagsins.

Fulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því ef rétt er að athugasemdir Skipulagsstofnunnar muni ekki tefja uppbygginu á Ásvöllum. Það er ljóst að Samfylkingin styður uppbyggingu knatthúss á Ásvöllum og m.a. studdi viljayfirlýsingu þess efnis sem samþykkt var í bæjarráði þann 17. maí, 2018. Mikilvægt er að börn og fullorðnir hjá Knattspyrnufélagi Hauka hafi góða aðstöðu til knattspyrnuiðkunnar, en eins og staðan er í dag er töluverður aðstöðumunur á milli íþróttafélaga í Hafnarfirði hvað það varðar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra bóka eftirfarandi: Vinna núverandi meirihluta hefur einmitt verið að leita leiða og lausna til að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á Ásvöllum. Allt er þetta hluti af því og hefur oddviti Samfylkingarinnar ítrekað gert athugasemdir í bæjarráði og bæjarstjórn við þá vinnu meirihlutans. Oddviti Samfylkingarinnar bókaði m.a. eftirfarandi á fundi bæjarstjórnar þann 18. september 2019:
,,Undirrituð gerir athugasemd við þá framsetningu að uppbygging íþróttamannvirkis sé hengd saman við íbúðauppbyggingu á svæðinu eins og fram kemur í gögnum málsins og tekur því ekki þátt í atkvæðagreiðslu varðandi það.?

Í viðtali við Fréttablaðið þann 22. nóvember 2019 sagði oddviti Samfylkingarinnar það gagnrýnisvert að ágóðinn af uppbyggingunni yrði eyrnamerktur byggingu knatthúss Hauka.

Núverandi meirihluti tekur því yfirlýsingum um stuðning Samfylkingarinnar við verkefnið með nokkrum fyrirvara.

Fulltrúi Samfylkingar bókar: Athugasemdir Samfylkingarinnar við uppbyggingu knatthús hafa lotið að því að mikil uppsöfnuð þörf er eftir uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði og ekki eru öll íþróttafélög í sömu aðstöðu varðandi úthlutun lands oþh. til að nota sem skiptimynt til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Varðandi aðalskipulag svæðins hefur verið bent á að ekki hafa legið fyrir upplýsingar um umferð og á áhrif á skóla, sem Skipulagsstofnun gerir m.a. athugasemd við. Hér höfum við aðeins verið að benda á góð og vönduð vinnubrögð. Það er athyglisvert að meirihlutinn kjósi að lesa það úr þessu að Samfylkingin sé á móti uppbyggingu knatthús á Ásvöllum.

Það er ákvörðun bæjarfélagsins hverju sinni að byggja upp mannvirki og fjármunir til þessa koma úr bæjarsjóði. Engin ákvörðun liggur fyrir um byggingu knatthúss á Ásvöllum þrátt fyrir loforð meirihlutans þess efnis. Staðan núna er að knattspyrnuiðkendur hjá Haukum búa við óviðunandi aðstæður og þurfa æfa úti við allskonar veðurskilyrði eins og dæmin sanna nú í janúar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra bóka: Meirihlutinn vísar í fyrri bókun sína og svo yfirlýsingar og bókanir fulltrúa Samfylkingarinnar í öllu þessu ferli. Málið er í góðum farvegi og meira er ekki um það að segja á þessum tímapunkti.