Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingar og Viðreisnar leggja fram eftirfarandi bókun:
Tillaga um deiliskipulagsbreytingu á Gjótur reitum 1.1 og 1.4 er að okkar mati algjörlega á skjön við þá góðu samstöðu sem náðist um rammaskipulag fyrir þetta svæði og samþykkt var 15.maí 2018. Nýja tillagan gerir ráð fyrir mikilli aukningu á byggingamagni. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða aukist úr 150 í 485 með því að leyfa allt að 9 hæða byggingar og fara með nýtingarhlutfall lóðar í 2,31 sem yrði það hæsta í Hafnarfirði. Ef þetta gengi eftir yrðu íbúar um 1.400 talsins á þessu litla svæði. Þessi tillaga er að okkar mati algjörlega óraunhæf og vandséð hvernig leysa ætti bílastæðismál, leikskóla- og skólamál svo eitthvað sé nefnt. Þar að auki myndi slíkt byggingamagn vera fordæmisgefandi fyrir uppbyggingu annarra hverfa á Hraun vestur svæðinu. Það er okkur óskiljanlegt með öllu að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknar skuli leyfa sér að gjörbreyta þeirri lausn sem góð sátt hafði náðst um. Við leggjum til að fylgt verði eftir skilmálum gildandi rammaskipulags.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra ásamt fulltrúa Miðflokksins bóka eftirfarandi: Skipulags- og byggingarráð samþykkti tillögu að breyttu deiliskipulagi Hraun vestur, Gjótur, deiliskipulag, ásamt greinargerð (dagsett 16. maí 2019) á fundi sínum 21. maí síðastliðinn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 29. maí samhljóma að auglýsa deiliskipulagstillöguna. Umsagnafrestur hefur verið framlengdur tvisvar sinnum á heimasíðu og samfélagsmiðlum bæjarfélagsins. Málið hefur auk þess verið kynnt mjög vel, meðal annars á fjölmennum fundi í Bæjarbíói. Meginforsenda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er uppbygging og þétting byggðar við samgöngumiðuð svæði. Uppbygging íbúða og þjónustu á þessum reit er í fullkomnu samræmi við markmið svæðisskipulagsins. Ofangreindir fulltrúar skipulags- og byggingarráðs eru þeirrar skoðunar að framkomin deiliskipulagstillaga sé í góðu samræmi við rammaskipulagið sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018 og vísaði til áframhaldandi úrvinnslu.
Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkir að deiliskipulagstillagan verði afgreidd í samræmi við 42. grein skipulagslaga og jafnframt að reiturinn verði skilgreindur sem þróunarreitur í samræmi við 6.mgr. 37.greinar skipulagslaga. Erindinu er jafnframt vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu.