Hraun vestur, gjótur, deiliskipulag
Síðast Frestað á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1833
2. október, 2019
Annað
Fyrirspurn
1.liður úr fundargerð skipulags- og byggingaráðs frá 30.septembet sl. Skipulags- og byggingarráð fól skipulagsfulltrúa á fundi sínum þann 24.9. að gera umsögn vegna framkominna athugasemda við tillögur að uppbyggingu. Umsögn skipulagsfulltrúa dags. 27.9.2019 lögð fram.
Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingar og Viðreisnar leggja fram eftirfarandi bókun: Tillaga um deiliskipulagsbreytingu á Gjótur reitum 1.1 og 1.4 er að okkar mati algjörlega á skjön við þá góðu samstöðu sem náðist um rammaskipulag fyrir þetta svæði og samþykkt var 15.maí 2018. Nýja tillagan gerir ráð fyrir mikilli aukningu á byggingamagni. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða aukist úr 150 í 485 með því að leyfa allt að 9 hæða byggingar og fara með nýtingarhlutfall lóðar í 2,31 sem yrði það hæsta í Hafnarfirði. Ef þetta gengi eftir yrðu íbúar um 1.400 talsins á þessu litla svæði. Þessi tillaga er að okkar mati algjörlega óraunhæf og vandséð hvernig leysa ætti bílastæðismál, leikskóla- og skólamál svo eitthvað sé nefnt. Þar að auki myndi slíkt byggingamagn vera fordæmisgefandi fyrir uppbyggingu annarra hverfa á Hraun vestur svæðinu. Það er okkur óskiljanlegt með öllu að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknar skuli leyfa sér að gjörbreyta þeirri lausn sem góð sátt hafði náðst um. Við leggjum til að fylgt verði eftir skilmálum gildandi rammaskipulags.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra ásamt fulltrúa Miðflokksins bóka eftirfarandi: Skipulags- og byggingarráð samþykkti tillögu að breyttu deiliskipulagi Hraun vestur, Gjótur, deiliskipulag, ásamt greinargerð (dagsett 16. maí 2019) á fundi sínum 21. maí síðastliðinn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 29. maí samhljóma að auglýsa deiliskipulagstillöguna. Umsagnafrestur hefur verið framlengdur tvisvar sinnum á heimasíðu og samfélagsmiðlum bæjarfélagsins. Málið hefur auk þess verið kynnt mjög vel, meðal annars á fjölmennum fundi í Bæjarbíói. Meginforsenda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er uppbygging og þétting byggðar við samgöngumiðuð svæði. Uppbygging íbúða og þjónustu á þessum reit er í fullkomnu samræmi við markmið svæðisskipulagsins. Ofangreindir fulltrúar skipulags- og byggingarráðs eru þeirrar skoðunar að framkomin deiliskipulagstillaga sé í góðu samræmi við rammaskipulagið sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018 og vísaði til áframhaldandi úrvinnslu.
Meirihluti skipulags- og byggingarráðs samþykkir að deiliskipulagstillagan verði afgreidd í samræmi við 42. grein skipulagslaga og jafnframt að reiturinn verði skilgreindur sem þróunarreitur í samræmi við 6.mgr. 37.greinar skipulagslaga. Erindinu er jafnframt vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu.
Svar

Til máls tekur Ólafur Ingi Tómasson. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir og svarar Ólafur Ingi andsvari. Guðlaug kemur þá til andsvars öðru sinni sem Ólafur Ingi svarar. Næst kemur Jón Ingi Hákonarson til andsvars og svarar Ólafur Ingi andsvari. Jón Ingi kemur þá til andsvars öðru sinni sem Ólafur Ingi svarar öðru sinni. Jón Ingi kemur að stuttri athugasemd sem og Ólafur Ingi. Næst kemur til andsvars Adda María Jóhannsdóttir og svarar Ólafur Ingi andsvari. Þá kemur Adda María til andsvars öðru sinni.

Næst tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson.

Einnig tekur Ágúst Bjarni Garðarsson til máls. Til andsvars kemur Adda María Jóhannsdóttir. Ágúst Bjarni svarar andsvari. Þá kemur Adda María til andsvars öðru sinni. Þá kemur Guðlaug til andsvars við ræðu Ágústs Bjarna og svarar Ágúst andsvari. Þá kemur Guðlaug til andsvars öðru sinni sem Ágúst Bjarni svarar öðru sinni.

Þá tekur til máls Adda María Jóhannsdóttir. Til andsvars kemur Ólafur Ingi og svarar Adda María andsvari. Þá kemur Ólafur Ingi til andsvars öðru sinni sem Adda María svarar einnig öðru sinni. Þá kemur Ólafur Ingi að stuttri athugasemd. Næst kemur Ágúst Bjarni að andsvari sem Adda María svarar. Þá kemur Ágúst Bjarni til andsvars öðru sinni sem Adda María svarar öðru sinni. Þá kemur Ágúst Bjarni að stuttri athugasemd.

Einnig tekur til máls Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni. Guðlaug svarar andsvari. Ágúst Bjarni kemur þá til andsvars öðru sinni. Einnig kemur Ólafur Ingi til andsvars við ræðu Guðlaugar. Guðlaug svarar næst andsvari. Þá kemur Ólafur Ingi til andsvars öðru sinni. Þá kemur Sigurður Þ. Ragnarsson til andsvars við ræðu Guðlaugar og svarar Guðlaug andsvari. Þá kemur Sigurður til andsvars öðru sinni sem Guðlaug svarar andsvari.

Þá tekur til máls Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Ólafur Ingi sem Jón Ingi svarar andsvari. Þá kemur Ólafur Ingi til andsvars öðru sinni. Einnig kemur Ágúst Bjarni til andsvars við ræðu Jóns Inga. Þá svarar Jón Ingi andsvari öðru sinni. Næst kemur Guðlaug Krisjánsdóttir til andsvars við ræðu Jóns Inga.

Fundarhlé kl. 18:23.

Fundi framhaldið kl. 18:43.

Þá tekur til máls Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ingi Tómasson og svarar Friðþjófur Helgi andsvari.

Þá tekur Ólafur Ingi til máls öðru sinni.

Einnig tekur til máls öðru sinni Jón Ingi Hákonarson.

Bæjarstjórn staðfestir með 8 greiddum atkvæðum afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs. Þau Adda María Jóhannsdóttir og Jón Ingi Hákonarson greiða atkvæði a móti tillögunni og Guðlaug Kristjánsdóttir situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er nauðsynlegt að samkvæmni sé í ákvörðunum stjórnsýslunnar í bænum. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða 29. maí sl. að auglýsa deiliskipulagið, en þá lágu fyrir þær breytingar sem nú liggja fyrir. Í annan stað telur bæjarfulltrúi Miðflokksins að við séum ekki komin á þann stað að hafa hlutfall bílastæða aðeins 0,65 og fagnar því að það hafi verið aukið. Má ennfremur nefna að stór hluti þessara bílastæða er afturkræfur þegar og ef almenningssamgöngur verða fyrirferðarmeiri. Í þriðja lagi er umræddur byggingareitur við helsta samgönguás bæjarins og telur bæjarfulltrúi Miðflokksins þvi eðlilegt að hlutfall íbúða hækki frá því sem áður var. Hins vegar hefði bæjarfulltrúinn talið að 9 hæða bygging sé of há. Að þessu virtu, þ.e. að teknu tilliti til vægi áðurnefndra þátta, styður bæjarfulltrúinn deiliskipulagstillöguna.

Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Undirrituð fagnar áformum um þéttingu byggðar á svæðinu sem kallað hefur verið Hraun-Vestur, Gjótur og bindur vonir við að það verði til þess að vöxtur verði í byggingu nýrra íbúða. Mikilvægt er að vanda til verka með fyrstu áfanga uppbyggingarinnar svo þar byggist upp eftirsóknarvert hverfi.

Í þessari deiliskipulagstillögu eru hins vegar töluverð frávik frá rammaskipulagi sem kynnt var íbúum og þverpólitísk sátt ríkti um. Það er miður að tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar og Viðreisnar um kynningarfund á þessari tillögu, sem lögð var fram í Skipulags- og byggingarráði, hafi verið hafnað af fulltrúum meirihlutans. Þar sem rammaskipulagið var aldei staðfest af bæjarstjórn er mikilvægt að leggja fram skýra framtíðarsýn fyrir svæðið og kynna hana fyrir bæjarbúum áður en deiliskipulag fyrir þessa reiti verður samþykkt. Þá þarf að huga að aukinni innviðauppbyggingu, s.s. leik- og grunnskólum, ef vilji er til að fara í þá miklu aukningu á íbúðamagni sem tillagan gengur út á.
Í ljósi ofangreinds getur undirrituð ekki stutt afgreiðslu deiliskipulagsins eins og það liggur fyrir.

Adda María Jóhannsdóttir


Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Viðreisnar mótmælir breytingu á skipulagi Hraun Vestur með því að gera umræddan reit að þróunarreit. Rammaskipuleg Hraun Vestur var gert í mikilli sátt og er miður að enn og aftur er rammaskipulag sem unnið er í sátt við almenning lagt til hliðar. Þessi ákvörðun um þróunarreit mun veita verktaka töluvert mikið frelsi til breytinga á byggingarmagni, fjölda íbúða og annarra breytinga, meirihlutinn mun eiga mun auðveldara að verða við kröfum verktaka um breytingu sem er mun auðveldara en ef skýrt deiliskipulag með greinargerð er í gildi. Þessi ákvörðun getur einnig haft þær afleiðingar að eigendur annarra reita í Hraun Vestur muni krefjast sömu meðferðar í gegnum jafnræðisreglu skipulagslaga og krefjast þess að fá sína reiti skilgreinda sem þróunarreiti og eiga auðveldara með að komast hjá því að byggja t.a.m. bílakjallara.

Enn og aftur sjáum við kunnuglegt stef í skipulagsmálum þegar stefnumörkun sem unnin hefur verið í sátt er jörðuð á síðustu metrum ákvarðanatökunnar. Hér er hugmyndin um þróunarreit látið læðast inn tveimur dögum fyrir afgreiðslu bæjarstjórnar sem er allt of stuttur tími til að hægt sé að ræða málið opinskátt og bregðast við með upplýstum hætti. Það að hverfa frá hefðbundnu deiliskipulagi með greinargerð deiliskipulags er með öllu óskiljanlegt en skijanlegt þegar saga skipulagsmála í Hafnarfirði er skoðuð. Hér er verktakaræði fastsett á kostnað almannahagsmuna. Sporin hræða.

Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihluta:

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bókar eftirfarandi:
Meginforsenda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er uppbygging og þétting byggðar við samgöngumiðuð svæði. Uppbygging íbúða og þjónustu á þessum reit er í fullkomnu samræmi við markmið svæðisskipulagsins. Meirihlutinn er þeirrar skoðunar að framkomin deiliskipulagstillaga sé í góðu samræmi við rammaskipulagið sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018 og vísaði til áframhaldandi úrvinnslu.