Til máls tekur Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson.
Einnig tekur til máls Friðþjófur Helgi Garðarsson sem og Ingi Tómasson.
Þá tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls. Til andsvars kemur Ingi Tómasson og svarar Sigurður andsvari. Ingi kemur þá til andsvars öðru sinni. Einnig kemur Jón Ingi Hákonarson til andsvars og svarar Sigurður andsvari.
Þá tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls.
Ágúst Bjarni Garðarsson víkur af fundi kl. 14:38 og í hans stað mætir Jóhanna Erla Guðjónsdóttir.
Til andsvars við ræðu Öddu Maríu kemur Jón Ingi Hákonarson. Einnig kemur Ingi Tómasson til andsvars sem Adda María svarar.
Til máls tekur Guðlaug Kristjánsdóttir. Til andsvars kemur Jón Ingi. Einnig Adda María Jóhannsdóttir.
Einnig tekur til máls Ingi Tómasson. Til andsvars kemur Guðlaug Kristjánsdóttir og svarar Ingi andsvari. Þá kemur Guðlaug til andsvars öðru sinni sem Ingi svarar öðru sinni. Þá kemur Guðlaug að stuttri athugasemd. Einnig kemur Adda María til andsvars.
Þá tekur Jón Ingi til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Ingi Tómasson.
Adda María kemur að svohjóðandi bókun:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Bæjarlistans ítreka fyrri bókanir um deiliskipulag fyrir Hraun vestur, gjótur. Ljóst er að annmarkar eru á meðferð og afgreiðslu málsins sem er bagalegt og setur áform um uppbyggingu á svæðinu í uppnám. Við minnum enn og aftur á mikilvægi þess að vanda til verka og leggjum áherslu á að virkt samráð við íbúa verði viðhaft í öllu ferlinu.
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Jón Ingi Hákonarson
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Einnig kemur Sigurður Þ. Ragnarsson að svohljóðandi bókun:
Það er alvarlegt þegar bæjaryfirvöld afgreiða skipulagsbreytingar fyrir sitt leyti og Skipulagsstofnun sendir þær breytingar svo til baka með athugasemdum um að þær uppfylla ekki kröfur skipulagslaga. Í þessu tilfelli gerir Skipulagsstofnun athugasemdir í yfir 30 liðum. Af þessum sökum er deiliskipulagið fyrir Hraun vestur, gjótur (reitir 1.1 og 1.4) afturkallað. Þessi vinnubrögð einkennast af skorti á vandvirkni og eru fjarri góðri stjórnsýslu. Ábyrgðin liggur hjá meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra. Miðflokkurinn gerir þá kröfu til meirihlutans að undirbúningur og vinna við mál sé í samræmi við lög og reglur.
Þá kemur Ingi Tómasson að svohljóðandi bókun:
Til að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar samþykkti skipulags- og byggingarráð að afturkalla frá Skipulagsstofnun deiliskipulag fyrir Hraun vestur, Gjótur, reitir 1.1 og 1.4, Hafnarfjörður. Við þeim athugasemdum verður brugðist eins og eðlilegt er. Af því tilefni, er rétt að benda á það að hér erum við í vel undirbúnu breytingaferli á rótgrónu iðnaðarhverfi í framtíðar íbúðahverfi. Málið hefur allt verið mjög vel kynnt, m.a. á fjölmennum íbúafundi í Bæjarbíói, heimasíðu og samfélagsmiðlum bæjarfélagsins, auk þess sem athugasemdafrestur var framlengdur tvisvar sinnum. Það er hins vegar rétt, í ljósi þessa, að benda á að þann 29. maí 2019 samþykkti bæjarstjórn samhljóma, allir flokkar, að auglýsa deiliskipulagstillöguna sem hér um ræðir.
Í því tímamótasamgöngusamkomulagi sem náðist milli ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 er ljóst að Borgarlínan mun liggja á þessu svæði og verður framkvæmdum við hana lokið á næstu 10 árum. Meirihluti bæjarstjórnar er því enn þeirrar skoðunar að framkomin deiliskipulagstillaga sé í góðu samræmi við rammaskipulagið sem kynnt var í Bæjarbíói og í fullkomnu samræmi við markmið svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Meginforsenda svæðisskipulagsins er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%.
Líkt og fram hefur komið hér að ofan er um að ræða flókið skipulagsmál, þar sem verið er að breyta rótgrónu iðnaðarhverfi í framtíðar íbúðahverfi. Það er því ekkert óeðilegt að í slíkri vinnu komi athugasemdir og ábendingar frá Skipulagsstofnun. Við þeim verður öllum brugðist líkt og venja er. Í þessu máli, líkt og öllum öðrum skipulagsmálum, er verið að vanda til verka. Að því sögðu, og í ljósi alls ferils málsins og stuðnings allra flokka við málið í bæjarstjórn 29. maí 2019, má velta því upp hvort upphlaup minnihlutans á þessum tímapunkti vegna þessa sé ekki í besta falli vondur pólitískur leikur? Við munum ekki taka þátt í slíku. Meirihlutinn mun halda áfram að einbeita sér og vinna að því að í nýju hverfi okkar, Hraun vestur, muni rísa falleg og góð byggð; samfélaginu okkar í Hafnarfirði til heilla.
Þá leggur Adda María fram svohljóðandi bókun vegna bókunar Inga Tómassonar:
Fulltrúar Bæjarlistans, Miðflokks, Samfylkingar og Viðreisnar benda á að það eru rangfærslur að halda því fram að kynningarfundur um deiluskipulagið hafi verið haldinn þegar ljóst er að hann var um rammaskipulag sem Skipulagsstofnun hefur nú bent á að sé í miklu ósamræmi við deiliskipulagið. íbúum hafa því ekki verið kynnt þau áform sem birtast í deiliskipulaginu. Þá setjum við spurningamerki við það hvort Skipulags og byggingarráð hafi umboð til að afturkalla samþykkt bæjarstjórnar.
Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir
Sigurður Þ. Ragnarsson
Adda María Jóhannsdóttir
Friðþjófur Helgi Karlsson
Jón Ingi Hákonarson