Tillaga að deiliskipulagi er samþykkt með 3 atkvæðum meirihluta gegn 2 atkvæðum minnihluta og að málsmeðferð verði í samræmi við 1.mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindinu er jafnframt vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi: Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga opnar á fjölbreytta byggð íbúðar-, verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Tillagan fellur vel að markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins þar sem meginstefnan er uppbygging og þétting byggðar við miðkjarna og önnur samgöngumiðuð þróunarsvæði og að hlutfall íbúðabyggðar á þeim svæðum vaxi úr 30% í 66%. Landsvæðið liggur að fyrirhugðuðum samgönguás Borgarlínu sem styrkir markmið svæðisskipulagsins og þéttingu byggðar. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga gerir ráð fyrir að með bættum almenningssamgöngum muni þeim bílastæðum, sem tillagan gerir ráð fyrir ofanjarðar fækka til að auka umhverfisgæði á útivistarsvæði. Þá er deiliskipulagstillagan í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Í greinargerð aðalskipulagsins dags. 20.04.2020 er gerð góð grein fyrir leik- og grunnskólum ásamt opnum grænum svæðum. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á öllu svæðinu, Hraun vestur, geti tekið allt að 20 árum og gera má ráð fyrir ýmsum breytingum á því tímabili er varðar samgöngur og samfélag sem getur haft áhrif á skipulag framtíðar.
Fulltrúi Miðflokks tekur undir framlagða bókun.
Fundarhlé.
Fundi framhaldið.
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Bæjarlistans styðja hugmyndir um þéttingu byggðar við Hraunin í tengslum við Borgarlínu eins og þau höfðu verið unnin í góðri sátt við íbúa og hagsmunaðila eftir vandað ferli með samkeppni, kynningarferli og vinnslu rammaskipulags sem skipulags- og byggingarráð hefur samþykkt.
Með fyrirliggjandi tillögu er vikið var þessu ferli á einni lóð, fyrir einn uppbyggingaraðila án nokkurs tillits til afleiðinga á hverfið í heild. Í stað skýrrar framtíðarsýnar er nú hlaupið til og fyrsta bútnum saumað í bútasaumsteppi sem enginn veit hvernig mun líta út að lokum.
Tillagan víkur í meginatriðum of mikið frá vandaðri rammaskipulagsvinnu til þess að fulltrúar flokkanna geti samþykkt hana að svo stöddu. Hæðir húsa aukast úr 4-6 hæðum upp í átta hæðir með tilheyrandi skuggavarpi þar sem engin sól mun koma í inngarða sex mánuði á ári, mikil aukning byggingarmagns og fjölgunar íbúða. Rými fyrir verslun og þjónustu hefur verið minnkað verulega sem dregur úr blöndun byggðar og bílastæðamagn er stóraukið og inngarðar eru fylltir af bílastæðum.
Þá má nefna áhrif hárra húsa á vindafar en um það segir m.a. í minnisblaði Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings: ,,Vel er þekkt að hærri byggingar draga niður vind. Þær trufla strauminn og valda ójafnvægi á skjólsvæðum. Vindþrýstingur áveðurs veldur niðurdrætti hlémegin. Líklegt má því telja að súgur myndist á opna svæðinu þar fyrir neðan vegna niðurdráttar.?
Það er ómögulegt að átta sig á því hvaða áhrif þessi gríðarlega framúrkeyrsla úr rammaskipulagi hefur á hverfið í heild sinni hvað varðar skólamál, umferðarmál og umhverfisgæði. Engin svör berast frá meirihlutanum um það hvort næstu reitir innan rammaskipulags Hrauna muni fylgja rammaskipulaginu eða hvort þetta deiliskipulag verði fjölfaldað um öll hraunin með óhóflegu byggingarmagni, bílastæðum og án grænna svæða eða nauðsynlegri grunnþjónustu. Þá hafa engin svör borist við fyrirspurnum um samninga við uppbyggingaraðila.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Fyrri bókun meirihluta segir allt sem segja þarf. Það er hins vegar staðföst skoðun meirihluta að framkomin deiliskipulagstillaga sé í samræmi við þá framtíðarsýn og hugmyndir sem settar eru fram í rammaskipulagsdrögum fyrir Hraun vestur. Hér er um að ræða enn eitt skipulagsmálið þar sem minnihlutinn reynir í örvæntingu sinni að leggja stein í götu kröftugrar og skynsamlegrar uppbyggingar innan Hafnarfjarðar. Horfa verður á bókun minnihluta Viðreisnar, Bæjarlistans og Samfylkingarinnar með það fyrir augum.
Fundarhlé.
fundi framhaldið.
Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingar og Viðreisnar furða sig á því hvernig meirihlutinn getur fullyrt að deiliskipulagstillagan sé í samræmi við rammaskipulagið, þegar um er að ræða aukningu á byggingarmagni um 60%.
Við höfum hvatt til öflugrar uppbyggingar húsnæðis í Hafnarfirði og um leið staðið ábyrga vakt um gæði byggðar, en hér er öllu meðalhófi hent út um gluggann af óþekktum ástæðum.