Kostir og gallar sumarlokunar leikskóla
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1858
25. nóvember, 2020
Annað
Fyrirspurn
13. liður úr fundargerð fræðsluráðs frá 18. nóvember sl.
Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og óháðir og Viðreisn samþykkja að farin verði leið B. Samfylkingin og Miðflokkurinn sitja hjá í afstöðu sinni um þá leið sem farin verður. Málinu er vísað til mennta- og lýðheilsusviðs til úrvinnslu og framkvæmda.
Fulltrúi leikskólastjóra lagði fram eftirfarandi bókun, fulltrúi starfsmanna leikskóla taka undir bókunina; Leikskólastjórar í Hafnarfirði ítreka mótmæli sín við sumararopnun leikskóla sumarið 2021 og minna á undirskriftir um það bil 400 starfsmanna leikskóla sem henni voru mótfallnir sem og þau faglegu rök sem undirskriftunum fylgdi og voru sendar inn til fræðsluráðs. Jafnframt minnum við á að Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla sendu frá sér ályktanir sem hvöttu Fræðsluráð til þess að falla frá ákvörðuninni. Leikskólastjórar telja að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hagsmunir leikskólabarna séu ekki hafðir að leiðarljósi. Samráð við fagfólk leikskóla var ekkert fyrr en eftir að ákvörðun var tekin og þá fyrst sett á laggirnar starfshópur. Við teljum kostnað sem liggur til grundvallar þessari ákvörðun verulega vanáætlaðan. Þessi breyting er ekki til þess gerð að bæta starfsumhverfi innan leikskólanna og hætta er á að hlutfall fagfólks minnki og þá sérstaklega með tilkomu eins leyfisbréfs. Í könnun sem oft er vitnað til og var framkvæmd af fræðsluráði árið 2019 kom fram að 94% foreldra gátu verið með barninu sínu að hluta eða öllu leyti í sumarleyfi í núverandi fyrirkomulagi. Frá því könnunin var lögð fyrir hefur sumarorlof foreldra aukist þar sem allir eiga nú 6 vikur í orlof. Foreldrar eiga því 12 vikur samtals, 6 vikur hvort yfir sumarið sem nær vel yfir þessar 4 vikur sem leikskólinn lokar. Sjáum ekki að þessi aðgerð auki samveru barna og foreldra þar sem að eftir sem áður fara börnin í 4 vikna fríi. Oddfríður Sæbý Jónsdóttir, sign.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar eftirfarandi leggja fram eftirfarandi bókun; Í skýrslu starfshóps kemur eftirfarandi fram; ?Markmið með sumaropnun er að koma til móts við óskir foreldra um að hafa leikskólann opinn í júlí og þannig auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarfríi á sama tíma og börn þeirra. Krafa um heilsársopnun er einnig í takt við nútíma samfélag, íslenskt atvinnulíf og rétt barna til að njóta sem flestra stunda með fjölskyldu sinni í fríi sínu?. Fulltrúar taka heilshugar undir þau markmið sem sett voru fram í skýrslunni. Í starfshópnum var unnið að leiðum sem höfðu minnstu möguleg áhrif á faglegt starf í leikskólum Hafnarfjarðar yfir sumartímann. Áhersla var lögð á starf og skipulag innan leikskólanna yrði með svipuðu móti og verið hefur og að sumaropnunin hefði ekki áhrif á öryggi barnanna og líðan þeirra í leikskólanum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og óháðra og Viðreisnar hafa væntingar til þess að tryggt sé að sú leið sem farin verður við heilsársopnun leikskólanna muni ekki hafa áhrif á traust foreldra til starfsins og að starfsfólk leikskólanna sjái tækiæri í að þróa starfið í takt við þær breytingar sem verða vegna sumaropnunarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og óháðir og Viðreisnar leggja til að farin verði leið B í skýrslu starfshóps, enda gengur sú leið lengra þegar kemur að hagsmunum barnanna þar sem fastráðnir starfsmenn taka frí frá mai - september eins og tíðkast víða á íslenskum atvinnumarkaði að mati þeirra. Þá er áhersla lögð á að gerð verði árangursmæling eins og lagt er til í skýrslunni svo bæta megi verklag ef á þarf að halda eftir sumarið 2021. Kristín María Thoroddsen, sign Bergur Þorri Benjamínsson, sign Margrét Vala Marteinsdóttir, sign Auðubjörg Ólafsdóttir, sign
Fulltrúar Samfylkingar og Miðflokksins leggja fram eftirfarandi bókun; Með því að halda til streitu ákvörðun um að hafa leikskóla opna allt sumarið frá og með sumrinu 2021 telja fulltrúar Samfylkingar og Miðflokks að vegið sé að faglegu starfi innan leikskóla Hafnarjarðar. Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var vorið 2019 um hug starfsfólks og foreldra sýndi að einungis 19% þeirra starfsmanna sem svöruðu vildu breytt fyrirkomulag varðandi sumarlokanir leikskólanna. Í kjölfar ákvörðunar um sumarlokun mótmæltu síðan mikill meirihluti starfsmanna ákvörðuninni og lýstu yfir áhyggjum af faglegu starfi innan skólanna. Ákvörðun um að skipa starfshóp í kjölfar þessarar ákvörðunar virðist ekki hafa orðið til þess að slá á þessar óánægju raddir og sýnir bókun fulltrúa leikskóla það vel. Við tökum undir þær áhyggjuraddir og þykir miður að þetta hafi orðið niðurstaða starfshópsins Sigrún Sverrisdóttir, sign Hólmfríður Þórisdóttir, sign
Lögð fram svohljóðandi tillaga í bæjarstjórn frá Friðþjófi Helga Karlssyni:
"Lagt er til að bæjarstjórn ógildi ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla og að bærinn haldi óbreyttu skipulagi. Nemendum skólana til heilla".
Svar

Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson.

Þá tekur Kristín María Thoroddsen til máls og kemur Friðþjófur Helgi til andsvars sem Kristín svarar. Friðþjófur Helgi kemur þá til andsvars öðru sinni.

Þá tekur Guðlaug Kristjánsdóttir til máls og leggur fram tillögu um að ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla verði frestað um ár. Til andsvars kemur Kristín María Thoroddsen. Guðlaug svarar næst andsvari. Þá kemur Kristín María til andsvars öðru sinni.

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir. Til andsvars kemur Friðþjófur Helgi Karlsson.

Einnig tekur til máls Sigurður Þ. Ragnarsson.

Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni Garðarsson og svarar Friðþjófur andsvari. Þá kemur Kristín María til andsvars. Friðþjófur Helgi svarar andsvari.

Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls.

Þá tekur Jón Ingi Hákonarson til máls.

Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls öðru sinni.

Þá tekur Guðlaug til máls öðru sinni og leggur fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að breytingu á sumarlokun leikskóla verði frestað um 1 ár, í ljósi krefjandi aðstæðna vegna Covid og þess álags sem það hefur valdið í leikskólum bæjarins, sem og óvissu um endanlegan kostnað. Óvissa í fjárhag bæjarins og álag á starfsfólk gefa ástæðu til að staldra við og skoða málið betur. Sá frestur gæfi líka tækifæri til betra samráðs við starfsfólk leikskólanna, sem hefur gert athugasemdir við að það samtal hafi hingað til verið af skornum skammti.

Þá ber forseti upp þá tillögu sem lá fyrir fundinum í upphafi þ.e. að bæjarstjórn ógildi ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla og að bærinn haldi óbreyttu skipulagi. Er tillagan felld með sjö atkvæðum frá meirihlutanum ásamt fulltrúa Viðreisnar sem greiða atkvæði gegn tilögunni. Aðrir fulltrúar greiða atkvæði með tillögunni.

Forseti ber þá upp framkomna tillögu Guðlaugar Kristjánsdóttir um að ákvörðun fræðsluráðs um sumaropnun leikskóla verði frestað. Er tillagan felld þar sem sex fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði gegn tillögunni, fulltrúi Viðreisnar sat hjá og fulltrúar Miðflokksins, Samfylkingar og Bæjarlistans greiddu atkvæði með tillögunni.

Friðþjófur Helgi Karlsson og Kristín María Thoroddsen gera grein fyrir atkvæðum sínum.

Auk þess kemur Kristín María að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Í skýrslu starfshóps um sumaropnun leikskóla kemur eftirfarandi fram; „Markmið með sumaropnun er að koma til móts við óskir foreldra um að hafa leikskólann opinn í júlí og þannig auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarfríi á sama tíma og börn þeirra. Krafa um heilsársopnun er einnig í takt við nútímasamfélag, íslenskt atvinnulíf og rétt barna til að njóta sem flestra stunda með fjölskyldu sinni í fríi sínu“. Tekið er heilshugar undir þau markmið sem sett voru fram í skýrslunni. Í starfshópnum var unnið að leiðum sem höfðu minnstu möguleg áhrif á faglegt starf í leikskólum Hafnarfjarðar yfir sumartímann. Áhersla var lögð á að starf og skipulag innan leikskólanna yrði með svipuðu móti og verið hefur og að sumaropnunin hefði ekki áhrif á öryggi barnanna og líðan þeirra í leikskólanum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa væntingar til þess að tryggt sé að sú leið sem farin verður við heilsársopnun leikskólanna muni ekki hafa áhrif á traust foreldra til starfsins og að starfsfólk leikskólanna sjái tækiæri í að þróa starfið í takt við þær breytingar sem verða vegna sumaropnunarinnar. Meirihluti tekur undir ákvörðun meirihluta fræðsluráðs um þá leið sem fara á í verklagi við sumaropnun enda gengur sú leið lengra þegar kemur að hagsmunum barnanna þar sem fastráðnir starfsmenn skipta með sér fríum frá maí - september eins og tíðkast víða á íslenskum vinnumarkaði. Þá er áhersla lögð á að gerð verði árangursmæling eins og lagt er til í skýrslunni svo bæta megi verklag ef á þarf að halda eftir sumarið 2021. Ítrekað er að fastráðið starfsfólk mun sinna starfi leikskólanna í júlí en starfsmenn Vinnuskólans 18 ára og eldri, munu bætast í hópinn eftir þörfum. Þess má geta að mennta- og lýðheilsusvið vinnur nú að undirbúningi innleiðingar breytinganna og kynningar fyrir starfsmenn.

Einnig kemur Friðþjófur Helgi Karlsson að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar leggja fram eftirfarandi bókun;
Það er með ólíkindum hvernig málið hefur verið unnið og keyrt áfram af meirihlutanum í fullkominni andstöðu við starfsfólks leikskólanna í Hafnarfirði, stéttarfélög leikskólakennara og félags stjórnenda í leikskólum og stéttarfélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Með því að halda til streitu þessari ákvörðun um að hafa leikskóla opna allt sumarið frá og með sumrinu 2021 telja fulltrúar Samfylkingarinnar að vegið sé alvarlega að faglegu starfi innan leikskóla Hafnarfjarðar. Þessi ákvörðun meirihlutans er óverjandi, hún er andlýðræðisleg og full af yfirlæti. Hún undirstrikar greinilega þá afstöðu meirihlutans að leikskólinn sé fyrst og fremst þjónustustofnun en ekki menntastofnun. Ekki fyrsta skólastigið sem leikskólinn svo sannarlega er og sem slíkt gríðarlega mikilvægt fyrir þróun okkar samfélags til framtíðar.

Þá kemur Sigurður Þ. Ragnarsson að svohljóðandi bókun:

Á tímum Covid höfum við hlustað á sérfræðinga sem ráðleggja okkur hvernig best sé að haga hlutunum til að forðast veiruna vondu.
Sérfræðingar innan leikskólanna hafa tjáð sig og ráðlagt okkur að forðast sumaropnun leikskóla með velferð barnsins að leiðarljósi. En nú ber svo við að meirihlutinn í Hafnarfirði og Viðreisn skella skollaeyrum við ráðum okkar færustu sérfræðinga sem starfa innan leikskólans. Meirihlutinn og Viðreisn tala um að taka tillit til atvinnulífsins. En hvar er ábyrgðin gagnvart okkar yngstu nemendum á aldrinum þriggja til fimm ára sem hafa ekkert um það að segja með hverjum þeir verja átta til níu tímum á dag, í litlu rými og jafnvel án bestu félaga sinna eða starfsmanns sem þeir þekkja verði þessari ákvörðun um sumaropnun ekki snúið við?
Skyldi nást að manna skólana með þeim hætti að starf haldist óbreytt og nemendur finni fyrir öryggi þegar þeir mæta í skólann sinn þar sem nýir starfsmenn fylla upp í sumarfrístíma kennaranna? Eða munu börnin upplifa kvíða og jafnvel verða fyrir kvíðaröskun en öll þekkjum við að breytingar valda, ekki síst börnunum okkar, kvíða og depurð. Sérfræðingar okkar í leikskólakerfinu í Hafnarfirði ráðleggja okkur eindregið frá því að fara þessa leið, að hafa leikskólana opna allt sumarið. Við eigum að hlusta á sérfræðingana okkar, það eru engir betri en þeir til að horfa á þetta faglega.