Skipulags- og byggingarráð samþykkir breytta tillögu að deiliskipulagi og að auglýsa hana í samræmi við 41.gr. skipulagslaga og vísar erindinu til bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar bendir á að deiliskipulag fyrir svæðið hafi fengið góða og faglega umfjöllun í ráðinu. Á fundi ráðsins þann 17. desember, 2019 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi lágreistrar byggðar. Það var loks tekið fyrir í bæjarstjórn í febrúar, en þá var því vísað aftur til ráðsins. Nú liggur fyrir alveg ný tillaga með umtalsverðum breytingum frá annarri arkitektaskrifstofu en gerði upphaflegu tillöguna. Engar ástæður eru tilgreindar fyrir þessum breytingum sem hafa verið unnar með ærnum tilkostnaði. Því miður er þetta enn eitt dæmið hjá meirihlutanum um hringlandann í skipulagsmálum og hvernig málum er þvælt fram og til baka innan kerfisins með tilheyrandi kostnaði sem kemur niður á áformum um uppbygginu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra bóka eftirfarandi:
Því miður kemur bókun fulltrúa Samfylkingarinnar ekki á óvart. Sá flokkur virðist ítrekað - og viljandi - gera tilraun til að leggja stein í götu uppbyggingar íbúðahúsnæðis í bæjarfélaginu með því að gera flókið skipulagsferli tortryggilegt í augum íbúa. Það er ekkert óeðlilegt að mál taki einhverjum breytingum í ferlinu. Að öðru leyti telur meirihlutinn rétt að benda á að góður gangur er almennt í skipulagsmálum í Hafnarfirði. Líkt og fram kemur í fyrri bókunum á fundinum er kröftug og skynsamleg uppbygging framundan hér í bæ; bæði á nýbyggingarsvæðum og þéttingarreitum eins og hér um ræðir. Í þessu máli stendur ekkert annað til en að setja deiliskipulagið í auglýsingu og kynna það formlega fyrir íbúum bæjarfélagins.
Fulltrúi Samfylkingarinnar bókar eftirfarandi:
Samfylkingin í Hafnarfirði hefur ávallt sett í forgang kröftuga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði eins og dæmin sanna. Hér er hins vegar verið að taka til afgreiðslu tillögu á svæði sem þegar hefur fengið umfjöllun og afgreiðslu úr ráðinu. Það er staðreynd að það mun seinka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þessu svæði. Þetta er því miður ekki eina dæmið um hringlandaháttinn hjá meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarmálum í Hafnarfirði.