Bæjarráð í umboði bæjarstjórnar samþykkir fyrirliggjandi tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hlíðarbraut 10 og Suðurgötu 41. Fulltrúi Samfylkingar situr hjá.
Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun: Fyrirhuguð uppbygging við Hlíðarbraut 10 er á reit þar sem nú stendur bygging sem áður hýsti leikskólann Kató og var lokað á seinasta kjörtímabili þrátt fyrir mótmæli. Eins og fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ítrekað bent á er mikill skortur á leikskólaplássum í hverfinu sem mikilvægt er að bregðast við. Núverandi meirihluti hyggur á uppbyggingu á nokkrum reitum í þessu sama hverfi án þess að nokkur skref hafi verið tekin að því að byggja þar upp nýjan leikskóla. Undirrituð minnir á að við þéttingu byggðar er mikilvægt að huga að nauðsynlegum innnviðum og eflingu nærsamfélags eins og m.a. kemur fram í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem finna má á vef Skipulagsstofnunnar. Á meðan ekki er hugað að þeim mikilvægum innviðum sem leikskólar eru getur undirrituð ekki stutt við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í hverfinu og situr hjá við afgreiðsluna.