Fulltrúar Bæjarlistans, Samfylkingarinnar og Viðreisnar taka undir athugasemdir sem Þórdís Bjarnadóttir, lögfræðingur, leggur til grundvallar kæru sinni á deiliskipulagsbreytingu fyrir Gjótur reiti 1.1. og 1.4. Þær eru í samræmi við bókanir okkar um deiliskipulagið sem kann að rýra lífsgæði íbúa og gesta, þ.e. hæðir húsa stórauknar með auknu skuggavarpi, bílastæðamagn fjórfaldað og mikil aukning byggingarmagns með sem er með því hæsta sem gerist í Hafnarfirði.
Á sínum tíma var unnin vönduð undirbúningsvinna að uppbyggingu á Hraunum með ítarlegu rammaskipulagi með metnaðarfullum markmiðum um vandaða byggð, sem sátt var um. Deiliskipulagstillagan að Gjótunum er veigamikil stefnubreyting frá samþykktu rammaskipulagi. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafnaði með öllu hugmyndum um að kynna deiliskipulagsbreytinguna betur á opnum íbúafundi og eiga með þeim hætti samráð við íbúa og hagsmunaaðila. Það kemur því ekki á óvart að íbúar nýti andmælarétt sinn og kæri umrædda deiliskipulagsbreytingu.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bókar eftirfarandi: Deiliskipulagið var samþykkt í bæjarstjórn af 8 bæjarfulltrúum. Annar bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar ásamt bæjarfulltrúa Viðreisnar greiddu atkvæði gegn tillögunni og bæjarfulltrúi Bæjarlistans sat hjá. Meginforsenda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er uppbygging og þétting byggðar við samgöngumiðuð svæði. Uppbygging íbúða og þjónustu á þessum reit er í fullkomnu samræmi við markmið svæðisskipulagsins. Meirihlutinn er þeirrar skoðunar að framkomin deiliskipulagstillaga sé í góðu samræmi við rammaskipulagið sem samþykkt var í skipulags- og byggingarráði þann 15. maí 2018 og vísaði til áframhaldandi úrvinnslu.