Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir og leggur til að bæjarstjórn samþykki svohljóðandi ályktun:
Ábyrgð á þjónustu við flóttafólk vísað til félagsmálaráðuneytisins
Hafnarfjarðarbær hefur frá árinu 2015 verið eitt þriggja sveitarfélaga landsins sem gert hefur samning við ríkisvaldið um móttöku einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd. Því mikilvæga samfélagslega verkefni hefur bærinn sinnt af alúð og metnaði og mikil sérþekking skapast. Auk þess hefur bæjarfélagið tekið á móti stórum hópi flóttafólks í gegnum samræmda móttöku. Nú er svo komið að hátt í 200 börn sem hafa komið til landsins á flótta eru í grunn- og leikskólum Hafnarfjarðar og leggur bæjarfélagið mikla áherslu á að sinna þeim einstaklingum vel.
Undanfarna mánuði hefur Hafnarfjarðarbær ítrekað komið því á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að bærinn geti ekki tekið á móti fleira flóttafólki í bili þar sem innviðir sveitarfélagsins séu fyrir all nokkru komnir að þolmörkum, sérstaklega hvað skólaþjónustu og stuðning til barna varðar.
Engu að síður hefur flóttafólki án samnings við bæjarfélagið fjölgað um nokkur hundruð á síðustu vikum. Fólkið er hingað komið og búsett í úrræðum sem Útlendingastofnun hefur komið upp í bæjarfélaginu algjörlega án samráðs við bæjaryfirvöld. Í erindum bæjarins til ráðuneytisins hefur því skýrt verið komið á framfæri að útilokað er að Hafnarfjarðarbær geti tekið við fleira flóttafólki og veitt því þá þjónustu sem lögum samkvæmt búsetusveitarfélaginu ber að gera, sbr. skólaþjónustu til barna.
Þar sem viðræður og erindi til ráðuneytisins og Útlendingastofnunar hafa ekki skilað árangri, er ábyrgðinni á veitingu þjónustunnar hér með vísað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Hafnarfjarðarbær skorast alls ekki undan þátttöku í verkefninu og vill sinna því vel áfram með hagsmuni flóttafólks og hælisleitenda að leiðarljósi. Ríkið verður hins vegar að standa undir sinni ábyrgð í málinu og koma til móts við bæjarfélögin sem hafa tekið að sér þessi verkefni.
Bæjarfélaginu ber lögum samkvæmt að gæta hagsmuna allra barna sem nú þegar eru í leik- og grunnskólakerfinu. Vegna skorts á samráði þola innviðir sveitarfélagsins hins vegar ekki frekari fjölgun flóttafólks án samnings og óskar Hafnarfjarðarbær því eftir því að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið taki ábyrgð á því að viðeigandi þjónustu við flóttafólk verði sinnt.
Einnig tekur Árni rúnar Þorvaldsson til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framangreindra bókun og að hún verði send félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.