Til máls tekur Ágúst Bjarni Garðarsson.
Einnig tekur til máls Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni.
Þá tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni.
Guðlaug Kristjánsdottir tekur þá næst til máls. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir. Einnig kemur til andsvars Ágúst Bjarni og svarar Guðlaug andsvari. Þá kemur Jón Ingi til andsvars við ræðu Guðlaugar.
Til máls tekur Friðþjófur Helgi Karlsson. Til andsvars kemur Ágúst Bjarni.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 atkvæðum að veita SORPU bs. heimild til skammtímalántöku allt að kr. 600 millj. króna, sbr. fyrirliggjandi erindi. Jón Ingi Hákonarson situr hjá.
Sigurður Þ. Ragnarsson kemur að svohljóðandi bókun:
Bókun bæjarfulltrúa Miðflokksins, Sigurði Þ. Ragnarssyni.
Sú staða sem upp er komin varðandi Sorpu bs. er grafalvarleg og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir framtíðarfjármál sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú liggur fyrir ákvörðun um lántöku uppá 600 milljónir króna. Hafa ber í huga að með vaxandi flokkun munu tekjur fyrirtækisins lækka. Í ljósi þess er mjög alvarlegt að vera auka skuldir á sama tíma. Það er vond blanda að búa við minnkandi tekjur og auka lántökur. Fyrir liggur líka að óvíst er að þessi 600 milljóna króna innspíting í fyrirtækið dugi til að koma því á réttan kjöl. Við blasir því algjört óvissuástand.
Samhliða þessu liggur fyrir að bygging gas og jarðgerðarstöðvar Sorpu (GAJA) fari langt framúr þeim kostnaðaætlunum sem fyrir lágu í upphafi og nemur umframkeyrslan ríflega 1,5 milljarði króna skv. endurskoðaðri kostanaðaráætlun. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem markað skortir fyrir afurðir GAJA. Strætó bs. gæti gæti hæglega breytt þeirri stöðu með breyttri innkaupastefnu á nýjum vögnum, þannig að keyptir væru vagnar gengju fyrir metani, sem er ein afurð GAJA. Rétt er að minna á að sami eigandi (sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu) eru að Sorpu bs. og Strætó bs. og því ættu að vera hæg heimatökin við að breyta innkaupastefnu Strætó bs. í vagnakaupamálum.
Borgar- og bæjarfulltrúum er, í þeirri stöðu sem upp er komin, stillt upp við vegg. Fátt annað er í stöðunni en að samþykkja þessar auknu lántökur. Því er gerð sú krafa að dregin verði upp sviðsmynd þar sem fram komi að rekstur Sorpu bs. sé sjálfbær eða geti orðið það.
Jón Ingi Hákonarson kemur að svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi
Sem bæjarfulltrúa get ég ekki samþykkt veðsetningu á framtíðartekjum bæjarins án nauðsýnlegra gagna er varða rekstur Sorpu og endurskoðaðrar rekstrar og fjárfestingaráætlana. Eitt af því sem virðist hafa farið úrskeiðis í málinu er blint traust stjórnar Sorpu á tillögur stjórnenda félagsins. Stjórnin sinnti því lítið sem ekkert sjálfstæðu eftirlitshlutverki sínu. Það er ómögulegt að gera sér grein fyrir því af þeim gögnum sem fylgja málinu hvort verið sé að henda góðum peningum á eftir slæmum. Nýjustu kannanir á samsetningu sorps í gráu tunnunum sem færi í gas og jarðgerðarstöð sýnir að einungis 45% sé nýtanlegt sem þýðir að 55% sorpsins þurfi að enn að urða. Því mun þessi gas og jarðgerðarstöð ekki sinna tilgangi sínum, sem er að minnka urðun um 95% heldur 45% og því er líklegt að önnur eins fjárfesting á sjóndeildarhringnum.
Guðlaug Kristjánsdóttir kemur að svohljóaðandi bókun:
Undirrituð gerir kröfu um að verkefnum á vettvangi stjórnar Sorpu og SSH ljúki hið fyrsta með raunverulegum tillögum til úrbóta, bæði hvað varðar hagræðingu í rekstri Sorpu og fyrirkomulag stjórnsýslu byggðasamlagsins. Að öðrum kosti er hér verið að moka sandi í sigti.