Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu vegna afslátta af þjónustugjöldum leik-, grunnskóla og frístundaheimila.
Farið yfir fyrstu greiningar og sviðsmyndir áhrifa kórónuveirunnar á fjárhag og sjóðsstreymi Hafnarfjarðarbæjar. Ræddar tillögur og mögulegar aðgerðir til að draga úr efnahagslegum áhrifum og tryggja velferð íbúa bæjarins. Unnið er að áætlun fyrstu fjárhagslegu aðgerða bæjarfélagsins sem miða að því að bregðast við tekjufalli, afslætti á gjöldum, frestun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og öðrum neikvæðum áhrifum kórónuveirunnar á sjóðsstreymi sveitarfélagsins. Grundvallaratriði er að styrkja stoðir grunnþjónustunnar á þeim krefjandi tímum sem nú ganga yfir en á sama tíma minnka niðursveifluna sem við blasir eins og nokkur kostur er. Í því skyni er mikilvægt að leita allra leiða til að halda fyrirhuguðum framkvæmdum sveitarfélagsins áfram, sbr. viðhaldi eigna og uppbyggingu innviða. Hugað verði ennfremur að sérstökum fjárfestingarverkefnum í samstarfi við ríkið, eins og boðaðar eru í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Aukin áhersla verði lögð á að hraða skipulagsvinnu á framtíðaruppbyggingarsvæðum og þéttingarreitum í bænum.