HS Veitur hf, sala hlutabréfa
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3559
22. október, 2020
Annað
Fyrirspurn
Eftirfarandi tillaga liggur fyrir fundinum: "Bæjarráð leggur til að gengið verði að fyrirliggjandi tilboði í hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS-Veitum hf.“
Svar

Tillaga:
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista leggja til að málið verði lagt í dóm hafnfirskra kjósenda með íbúakosningu.

Greinargerð:
Það er mikilvægt að framkvæma íbúakosningu um þetta umdeilda mál og leiða þannig vilja bæjarbúa í ljós. Til þess eru ríkar ástæður:
Í fyrsta lagi átti engin umræða sér stað um eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum eða öðrum fyrirtækjum fyrir kosningar. Einkavæðing opinberra orkuinnviða var ekki á stefnuskrá neins flokks. Enginn fulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var kosinn til að framfylgja þeirri stefnu.
Í öðru lagi fengu þeir flokkar sem mynda meirihlutann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar færri atkvæði í síðustu kosningum en flokkarnir í minnihlutanum. Þessi staðreynd hlýtur að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn.
Í þriðja lagi er um gríðarlega umdeilt mál að ræða sem snertir bæði framtíðartekjur bæjarins og fyrirkomulag eignarhalds á orkuinnviðum. Slíkt krefst mun meiri umræðu og samráðs við bæjarbúa en raun ber vitni í þessu máli.

Fundarhlé gert kl. 10:15
Fundir fram haldið kl. 10:38

Tillagan er borin upp til atkvæða. Fulltrúar minnihluta greiða atkvæði með tillögunni, fulltrúar meirihluta greiða atkvæði á móti. Tillagan er því felld.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Niðurstaða söluferlisins er fagnaðarefni. Ljóst er að mjög gott verð hefur fengist fyrir hlutinn og bent er á að með sölunni eignast lífeyrissjóðir (sem eru yfir 90% bjóðenda) hlut bæjarins sem verður þá áfram í eigu almennings. Um minnihlutaeign í HS-Veitum er að ræða og hefur salan engin áhrif á íbúa í Hafnarfirði en verðlagning á raforkudreifingu er bundin ströngum skilyrðum í raforkulögum. Salan dregur verulega úr lánsfjárþörf bæjarins og þar með afborgunum og vaxtagreiðslum til framtíðar. Andvirði sölunnar gefur Hafnarfjarðarbæ jafnframt færi á því að sækja fram af meiri krafti með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og draga úr skaða vegna Kovid-19 faraldursins.
Niðurstaða nýlegrar undirskriftasöfnunar sýnir og staðfestir að ekki er tilefni til að halda íbúakosningu um málið.

Fundarhlé gert kl. 10:45
Fundi fram haldið kl. 10:55

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlista og Miðflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er grundvallarmunur á tilgangi lífeyrissjóða og sveitarfélaga með eign í grunninnviðum. Lífeyrissjóðir eru fagfjárfestar sem ber lagaleg skylda til að skila arði af fjárfestingum sínum. Arður af flutningskerfi raforku verður einungis sóttur í vasa notenda þjónustunnar. Markmið sveitarfélags með eign í grunninnviðum er fyrst og fremst að tryggja örugga þjónustu á hagstæðum kjörum fyrir notendur.
Frá árinu 2013, þegar sá aðili sem nú hefur boðið í hlut Hafnarfjarðarbæjar keypti fyrst í HS veitum, hafa arðgreiðslur til eigenda aukist til muna. Sú þróun mun líklega frekar aukast en minnka ef sala á hlut Hafnfirðinga gengur eftir. Með sölunni stuðlar meirihluti bæjarstjórnar því að auknum arðgreiðslum út úr rekstri veitnanna, með tilheyrandi áhættu fyrir verð þjónustunnar til notenda.

Fundarhlé gert kl. 10:59
Fundi fram haldið kl. 11:03

Tillaga:
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlista og Miðflokks fara fram á að málinu verði frestað þar til fyrir liggur hver aðkoma ríkisins verður í rekstrarvanda sveitarfélaga.

Tillagan borin upp til atkvæða. Fulltrúar minnihluta greiða atkvæði með tillögunni, fulltrúar meirihluta greiða atkvæði á móti. Tillagan er því felld.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Meirihlutinn vísar í fyrri bókun sína undir sama lið.

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tilboð og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum meirihluta. Fulltrúar minnihluta greiða atkvæði á móti.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlistans og Miðflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlistans og Miðflokks lýsa furðu á þeirri afstöðu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra að verjandi sé að leggja til sölu á hlut bæjarins í HS Veitum á þessum tímapunkti.
Á fundi bæjarráðs í dag liggur fyrir röksemdafærsla fyrir sölunni sem í vantar mikilvæga þætti sem varða hagsmuni bæjarbúa. Ljóst má vera af umræðu um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, bæði í fjölmiðlum og á pólitískum vettvangi, að sterk rök hníga að því að ríkissjóður verði að stíga inn með afgerandi hætti, annað hvort með afar hagstæðum lánum á ríkis- og/eða Seðlabankakjörum eða þá með beinum framlögum til að mæta tekjutapi. Samanburður innan OECD styður þau rök með afgerandi hætti.
Sú greining sem meirihlutinn leggur fram til stuðnings á sölu almannaeignar í grunninnviðum tekur ekkert tillit til þess að þessi ríkisstuðningur sé til umræðu. Því er haldið fram að það felist bein áhætta í því að bærinn eigi áfram hlut sinn í HS Veitum en ekki vikið að því orði hvort áhætta geti falist í því að selja of snemma.
Í gögnum með málinu er talið til áhættu að Hafnarfjörður geti orðið innlyksa með hlut sinn ef Reykjanesbær ákveði að selja leyfilegan hluta opinberra aðila í HS Veitum. Fulltrúum minnihlutans vitanlega hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að Reykjanesbær sé í söluhugleiðgum. Því er asi málsins af hálfu meirihlutans óskiljanlegur.
Síðast en alls ekki síst skal því haldið til haga að bæjarbúar hafa ekki verið spurðir álits á málinu, enda var sala á almannaeign alls ekki til umræðu í síðustu kosningum. Fyrir liggur að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa hafnað boði minnihlutans um aukið samstarf þvert á pólitískar línur í þeim stóru verkefnum sem framundan eru í rekstri bæjarins. Það skref sem þau stíga hér í dag er glögglega til marks um það að þeim hugnast best að keyra mál í gegn með meirihlutavaldi.

Fundarhlé gert kl. 11:16
Fundi fram haldið kl. 11:25

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Ákvörðun meirihluta bæjarráðs í dag er tekin að vel ígrunduðu máli, með hag íbúa og bæjarfélagsins að leiðarljósi.


Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylking, Viðreisn, Bæjar-Listi, Miðflokkur
    Það er grundvallarmunur á tilgangi lífeyrissjóða og sveitarfélaga með eign í grunninnviðum. Lífeyrissjóðir eru fagfjárfestar sem ber lagaleg skylda til að skila arði af fjárfestingum sínum. Arður af flutningskerfi raforku verður einungis sóttur í vasa notenda þjónustunnar. Markmið sveitarfélags með eign í grunninnviðum er fyrst og fremst að tryggja örugga þjónustu á hagstæðum kjörum fyrir notendur.
  • Samfylking, Viðreisn, Bæjar-Listi, Miðflokkur
    Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Bæjarlistans og Miðflokks lýsa furðu á þeirri afstöðu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra að verjandi sé að leggja til sölu á hlut bæjarins í HS Veitum á þessum tímapunkti.