Til máls taka Sigurður Þ. Ragnarsson, Guðlaug Kristjánsdóttir, Stefán Már Gunnlaugsson, Árni Rúnar Þorvaldsson og Jón Ingi Hákonarson.
Þá tekur Sigurður Þ. Ragnarsson til máls öðru sinni. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir og svarar Sigurður andsvari. Rósa kemur þá til andsvars öðru sinni og Sigurður svarar andsvars. Þá kemur Árni Rúnar til andsvars og svarar Sigurður andsvari. Árni Rúnar kemur þá til andsvars öðru sinni. Þá kemur Jón Ingi Hákonarson til andsvars við ræðu Sigurðar og svarar sigurður andsvari.
Sigurður Þ. Ragnarsson leggur fram svohljóðandi bókun:
Bókun bæjarfulltrúa Bæjarlistans, Miðflokksins, Samfylkingar og Viðreisnar:
Það vekur óneitanlega athygli að dómnefnd sérfræðinga við Fréttablaðið Markaðinn skuli velja sölu meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á hlut bæjarins í HS-veitum, einu verstu viðskipti ársins 2020. Tilkynnt var um þetta í blaðinu 30 desember sl.
Úrskurður dómnefndar sérfræðinganna var „Sala Hafnarfjarðar á HS-veitum: „Var selt á verulegum afslætti miðað við margfaldara innviðafyrirtækja.“
Ef rétt reynist er hér um stórkostleg afglöp núverandi meirihluta bæjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra sem þarfnast skoðunar og rannsóknar. Fulltrúum minnihluta er stórkostlega brugðið að sjá þessi viðskipti bæjarins, á þessum lista yfir verstu viðskipti nýliðins árs.
Rósa Guðbjartsdóttir kemur að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihlutans:
Fullyrðing um að hlutur Hafnarfjarðar í HS Veitum hafi verið seldur „á verulegum afslætti miðað við margfaldara innviðafyrirtækja“ er ekki rökstudd. Þvert á móti, séu kennitölur hliðstæðra innviðafyrirtækja víða um heim bornar saman við söluverð HS Veitna er ekki að sjá annað en að gott verð hafi fengist fyrir hlut Hafnarfjarðar í fyrirtækinu. Þess má geta að Reykjanesbær sem átti forkaupsrétt vegna sölunnar nýtti sér ekki þann rétt sinn. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál, stendur árlega fyrir eins konar uppgjöri í tilefni áramóta. Uppgjörið er til gamans gert þar sem vel á tugir einstaklinga fá nafnlaust að láta gamminn geysa um skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Að órökstudd níu orða setning frá einum ónafngreindum aðila á þessum vettvangi skuli tekin til umræðu sem heilög sannindi á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði er með ólíkindum.