Lagt fram.
Fulltrúar Samfylkingar, Miðflokks, Viðreisnar og Bæjarlista þakka framlögð svör og óska bókað.
Á fundi bæjarráðs þann 22. apríl var tekin til afgreiðslu tillaga um að hafinn yrði undirbúningur að sölu hlutabréfa Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum. Tveimur dögum síðar, þann 24. apríl var undirritaður ráðgjafarsamningur um fyrirhugaða sölu við Kviku banka án þess að það væri kynnt eða rætt á fundinum, eða bæjarráðsfulltrúum tilkynnt þar um. Það hefur því augljóslega verið gengið hratt til verks og einsýnt að ekki þurfti mikinn undirbúning að samningsgerðinni.
Það hefur hins vegar tekið drjúgan tíma að svara framlögðum fyrirspurnum sem lagðar voru fram í bæjarráði þann 20. maí sl. Svörin voru ekki birt bæjarráðsfulltrúum fyrr en eftir kl. 22:00 að kvöldi þess 3. júní fyrir fund ráðsins í dag, þann 4. júní, sem hófst kl. 8:15. Þetta er því miður ekki einsdæmi og er hér því gerð formlega athugasemd við það að fulltrúar fái ekki nægan tíma til undirbúnings.
Í framlögðum svörum kemur fram áhersla á að málið gangi hratt fyrir sig og eru gefnar fyrir því tvær ástæður. Í fyrsta lagi sú að hætta sé á að annað sveitarfélag verði fyrra til við sölu á sínum hlut sem myndi binda hlut Hafnarfjarðarbæjar til lengri tíma. Hins vegar er það talið óvíst að tími hefði unnist til að setja af stað alla þá verkferla sem alla jafna eru viðhafðir svo viðskiptin geti klárast fyrir sumarleyfi.
Undirrituð leyfa sér að gagnrýna harðlega þau vinnubrögð að fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ætli að taka ákvörðun um og hugsanlega ganga frá sölu á hlut bæjarins í HS Veitum á einungis nokkrum vikum frekar en fylgja hefðbundnum verkferlum sem tilgreindir eru í framlögðum svörum á þeim forsendum að það geti tafið málið til hausts. Þá er einnig gagnrýnt að upplýsingar um áætlað umfang samningsins hafa verið teknar út og upplýsingum um söluprósentu haldið leyndri fyrir almenningi.
Í ljósi þess hraða sem einkennir málið allt, gefa upplýsingar sem fram koma í lið b. framlagðra svara um að sérfræðingar Kviku banka hafi vitneskju um fjárfesta sem hafi áhuga, vilja og burði til þess að kaupa hluta í fyrirtækinu einnig tilefni til að spyrja hvort vitneskja um áhugasama kaupendur hafi legið fyrir um einhvern tíma.
Undirrituð óska því svara við eftirfarandi og að þau verði lögð fram tímanlega fyrir næsta fund bæjarráðs:
- Liggur fyrir vitneskja um áhugasama kaupendur að hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum?
- Ef svo er, hversu lengi hefur sú vitneskja legið fyrir? Nánar tiltekið, lá sú vitneskja fyrir áður en meirihluti bæjarráðs samþykkti þann 22. apríl sl. að hafinn yrði undirbúningur að sölu hlutabréfa Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum?
Adda María Jóhannsdóttir
Sigurður Þ. Ragnarsson
Árni Stefán Guðjónsson
Birgir Örn Guðjónsson
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Visað er á bug dylgjum og útúrsnúningum minnihlutans vegna málsins. Eins og fram kemur í svörum við fyrirspurnunum er sveitarfélaginu heimilt að ganga til viðræðna við ráðgjafa án útboðsferlis vegna fjármálaþjónustu sem þessarar sbr. lög um opinber innkaup nr. 120/2016 gera ráð fyrir. Mikilvægt þótti að fá fram tilboð í hlutinn fyrir sumarleyfi en svo tekur við tími til að vega og meta tilboðin sem berast, enginn flýtir er því í sölunni sjálfri eins og ýjað er að. Vegna viðskiptalegra sjónarmiða er söluþóknun ekki gefin upp á þessu stigi máls, eins og alla jafna er í sambærilegum málum, enda kemur ekki til neinnar þóknunar nema af sölu verði.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar óska því til samanburðar á meðferð sambærilega mála hjá sveitarfélaginu að teknar verði saman allar upplýsingar um tilurð og kostnað við ráðgjafasamninga sem gerðir voru vegna lögfræðilegrar ráðgjafar í söluferli HS-Orku frá árinu 2009 og endurfjármögnunar lána bæjarsjóðs árið 2013.
Svar við viðbótarfyrirspurnum er eftirfarandi: Í gangi er opið söluferli sem auglýst hefur verið opinberlega og er svarið við fyrirpurninni því einfaldlega: Nei.