Undirskriftasöfnun, tilkynning, HS Veitur
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1858
25. nóvember, 2020
Annað
Fyrirspurn
3. liður úr fundargerð bæjarráðs frá 19.nóvember sl.
Lögð fram tilkynning um undirskriftasöfnun. Til afgreiðslu.
Svar

Til máls tekur Rósa Guðbjartsdóttir.

Einnig tekur Sigrún Sverrisdóttir til máls. Rósa kemur til andsvars.

Þá tekur Friðþjófur Helgi Karlsson til máls.

Bæjarstjórn hafnar fyrirliggjandi erindi um undirskriftarsöfnun með 6 greiddum atkvæðum meirihluta gegn 5 atkvæðum meirihluta.

Ágúst Bjarni Garðarsson kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar bóka eftirfarandi:
Þann 23. október sl. barst Hafnarfjarðarbæ tilkynning þriggja einstaklinga um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í Hafnarfirði „vegna kröfu um almenna atkvæðagreiðslu í bæjarfélaginu um þá ákvörðun bæjarráðs að selja 15,42% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum, sbr. fund bæjarráðs haldinn 22. október síðastliðinn“, eins og segir í erindinu. Er í erindinu vísað til 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og í reglugerð nr. 155/2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Samhljóða erindi hafði borist í maí sl. að meginhluta frá sömu aðilum vegna ákvörðunar bæjarráðs frá 22. apríl sl. um að hefja söluferli á hlut bæjarins í HS Veitum. Bæjarráð samþykkti þá á fundi sínum þann 4. júní sl. að undirskriftarsöfnun færi fram og var yfirskrift undirskriftarsöfnunarinnar svohljóðandi:

„Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar 22. apríl s.l. var ákveðið að hefja undirbúning að sölu hlutabréfa bæjarins í HS Veitum hf. Við krefjumst þess að Hafnfirðingar fái að tjá hug sinn í almennri íbúakosningu áður en ákvörðun er tekin um að selja hlutabréf bæjarins í félaginu.“
Söfnun undirskrifta fór fram á tímabilinu 15. júní til 13. júlí sl. og alls skráðu 1593 nafn sitt á undirskriftarlistann eða 7,6% þeirra sem voru á kjörskrá. Var niðurstaða söfnunarinnar kynnt í bæjarráði þann þann 16. júlí sl.
Samkvæmt framangreindu er ljóst að nú þegar hefur farið fram undirskriftarsöfnun þar sem óskað er eftir almennri atkvæðagreiðslu um sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í HS Veitum og liggur niðurstaða þeirrar söfnunar fyrir. Verður ekki séð að hægt sé að óska eftir nýrri undirskriftarsöfnun vegna sama máls.

Í samræmi við fyrirliggjandi gögn hafnar meirihluti bæjarstjórnar fyrirliggjandi erindi um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 2. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga.“


Friðþjófur Helgi Karlsson kemur að svohljóðandi bókun:

Hér er um að ræða slæleg vinnubrögð meirihlutans í þessu máli. Það er ljóst að hér hefur ekki verið svarað innan tiltekins tíma. Tikynning þess efnis að fyrirhuguð væri undirskriftarsöfnun barst bæjaryfirvöldum 23. október síðastliðinn. Í lögunum segir að eftir að sveitarstjórn hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun, þá skal hún innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið og tilkynna ábyrgðaraðila um niðurstöðu sína án tafar.
Sveitarstjórn skal leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.
Fulltrúar Samfylkingarinnar telja mikilvægt að lýðræðislegum rétti bæjarbúa sé sómi sýndur. Við teljum að þarna fari eðlileg og réttmæt krafa um söfnun undirskrifta frá bæjarbúum til að mótmæla sölu á hlut bæjarins í HS-Veitum og krefjast þess að málið fari í íbúakosningu þar sem hægt væri að hnekkja þessari niðurstöðu sé vilji meirihluta bæjarbúa til þess.