Kolefnisförgun í Straumsvík, Kolefnisförgunarver, Carbfix Coda Terminal
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3607
25. ágúst, 2022
Annað
Fyrirspurn
Tillaga lögð fram af Samfylkingunni í bæjarstjórn þann 17. ágúst sl.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að gengið verði hið fyrsta frá almennri viljayfirlýsingu/rammasamkomulagi milli Hafnarfjarðarbæjar, Hafnarfjarðarhafnar, Carbfix og eftir atvikum annarra hagsmunaaðila, s.s. ríkisvaldsins og Rio Tinto um uppbyggingu í Straumsvíkurhöfn vegna Carbfix verkefnisins. Mikilvægt er að þetta fyrirhugaða samstarf verði formgert hið fyrsta. Ennfremur að sett verði á laggirnar skipulags- og verkefnisstjórn um þetta verkefni, þar sem að komi kjörnir fulltrúar, embættismenn bæjarins og eftir atvikum aðrir hagsmunaaðilar.
Svar

Eftir umræðu sameinast bæjarráð um að leggja áherslu á að formgera sem fyrst samstarf Carbfix, Hafnarfjarðarhafnar og Hafnarfjarðarbæjar og eftir atvikum annarra hagsmunaaðila, sbr. Rio Tinto og íslenska ríkisins, vegna næstu skrefa í áformum Carbfix. Meðal annars vegna uppbyggingar í Straumsvíkurhöfn. Í slíku rammasamkomulagi yrðu framkvæmdaáfangar tímasettir, meginatriði samkomulags um hafnaraðstöðu Carbfix í Straumsvík tíunduð, sem og önnur þjónusta. Jafnframt yrðu fjárhagslegar forsendur og fjármögnun samkomulagsins skilgreindar. Mikilvægt er að kynna áformin vel fyrir íbúum og hagsmunaaðilum í bænum í aðdraganda hvers áfanga verkefnisins.Bæjarráð samþykkir einnig að skipaður verði starfshópur bæjarins um verkefnið og erindisbréf vegna hans og tilnefningar kláraðar á næsta fundi ráðsins.

Framangreindri afgreiðslu bæjarráðs er vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.