Samningar um sérhæfða akstursþjónstu og skóla- og frístundaakstur, tekjufall
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3600
12. apríl, 2022
Annað
Fyrirspurn
2. liður úr fundargerð fjölskylduráðs 8. apríl sl.
Samningar um sérhæfða akstursþjónustu, tekjufall. Fulltrúi Framsóknar og óháðra bókar eftirfarandi. Fulltrúi Framsóknar og óháðra tekur jákvætt í erindi Hópbíla um tekjufallsstyrk. Á þessum Covid tímum hafa Hópbílar haldið úti góðri og samfelldri þjónustu. Hópbílar hafa, eins og svo mörg önnur fyrirtæki, orðið fyrir tekjufalli vegna faraldursins. Mikilvægt er að bregðast við, eins og víða hefur verið gert, til að tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp.
Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskar bókað.
Bæjarráð vísaði þann 3. Mars 2022 umsókn um tekjufallsstyrk til umfjöllunar í Fjölskylduráði.
Varðar: Samning um sérhæfða akstursþjónustu í Hafnarfirði og beiðni verksala um tekjufallsstyrk að fjárhæð um 35 miljónir sem yrði þá 100% greiðsla fyrir viðmiðunarfjölda ferða vegna ársins 2021. Bæjarráð hefur tekið fyrri erindi verksala til afgreiðslu á þremur fundum á árinu 2021 og 2022, þann 28. Janúar 2021, 15. Júlí 2021 og 3. Febrúar 2022. Um er að ræða ósk um viðbótargreiðslur við samning um sérhæfða akstursþjónustu sem samþykktur var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þann 18. Mars 2020. Erindi bæjarráðs sem vísað er til Fjölskylduráðs til umræðu er ósk verksala um að á árinu 2021 verði greitt fyrir viðmiðunarfjölda ferða að fullu en ekki fyrir eknar ferðir samkvæmt samningi en áður hefur af hálfu bæjarráðs verði samþykkt að greiða 80% af viðmiðunarfjölda ferða fyrir fyrri part ársins 2021 og 90% af viðmiðunarfjölda ferða fyrir seinni helming ársins 2021 og greiðslur fyrir 100% af viðmiðunarfjölda ferða fyrir árið 2022. Ekki hafa fengist skýringar frá formanni bæjarráðs á forsendum sem liggja að baki mismunandi prósentum vegna viðbótargreiðslna né nákvæmar fjárhæðir á þeim greiðslum sem hafa verið samþykktar sem eru um 140 miljónir vegna ársins 2020, 2021 og 2022. Ekki liggja fyrir viðaukar fyrir hluta af þessum greiðslum.
Afgreiðslur í bæjarráði varðandi tekjufallstyrki til verksala hafa verið án aðkomu eða samráðs við Fjölskylduráð sem fer með forræði á samningi um Sérhæfða akstursþjónustu í Hafnarfirði í umboði bæjarstjórnar. Samningurinn felur í sér að greitt er fyrir veitta þjónustu í þessu tilfelli eknar ferðir frá A til B með mánaðarlegu uppgjöri sbr. Grein 1.6.2.22 til 1.6.24. Um er að ræða fast verð fyrir hverja ferð og verð tekur vísitölubreytingum. Þetta er sama fyrirkomulag og viðhaft hefur verið um árabil í sambærilegum samningum um akstursþjónustu.
Greiðslur samkvæmt samningi liður 1.5.6 Greiðslur:
Greitt verður til verktaka samkvæmt yfirfarinni(leiðréttri) tilboðsskrá. Reikningar skulu lagðir fram mánaðarlega og með akstursuppgjöri.
Í samningnum er skýrt kveðið á um óviðráðanleg atvik ? Force Majeure í lið 1.5.14:
Hvorki seljandi né kaupandi verða krafðir um bætur ef óviðráðanleg atvik (force majeure) sem hvorugum aðila verður kennt um svo sem styrjöld, eldsvoði, náttúruhamfari, verkföll, verkbönn eða annað þess hátta koma í veg fyrir efndir samnings þessa.
Ekki er um að ræða ákvæði í samningi milli aðila sem fela í sér skyldur verkkaupa til þess að mæta breytingum á ferða fjölda og samningurinn er þannig uppsettur að nánast eingöngu er um breytilegan kostnað að ræða að undanskilinni upphafsfjárfestingu í búnaði. Verksali er reynslumikið fyrirtæki sem hefur annast sambærilega akstursþjónustu um árabil og hefur töluverða reynslu og þannig skilyrði til að aðlaga sinn rekstur að framboði í samræmi við forsendur samnings þar sem sérstaklega var litið til þess að skilgreina og skipuleggja þjónustuna með fyrirsjáanleika að leiðarljósi. Samingurinn sem um ræðir var gerður í mikilli samvinnu við Ráðgjafarráð fatlaðs fólks í Hafnarfirði sem áttu tvo fulltrúa í starfshópi Fjölskylduráðs sem undirbjó útboð vegna samningsins og sem yfirfór þjónustuþörf og skoðaði leiðir að því markmiði að gera akstursþjónustuna skilvirkari og hagkvæmari en verið hafði í samvinnuverkefni um þjónustuna frá árinu 2015 undir yfirumsjón Strætó BS. Með starfshópnum starfaði Innkaupastjóri Hafnarfjarðarbæjar og verkfræðingur. Með því að skilgreina þarfir og skipulag þjónustunnar náðist fram mikilvæg hagræðing í núverandi samingi án þess að slakað væri á kröfum um gæði og það ásamt því að heimastöð verksala er í Hafnarfirði er meginástæða þess að hagstæður samingur var gerður milli aðila en jafnframt sú mikla reynsla sem verksali býr yfir. Viðbótargreiðslur vegna viðmiðunarfjölda ferða eiga ekki við miðað við samningsforsendur. Helga Ingólfsdóttir Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskar bókað: Undirritaður tekur jákvætt í erindið enda mikilvægt að tryggja áframhaldandi rekstur þessarar mikilvægu þjónustu. Fulltrúi Samfylkingarinnar harmar hins vegar þau vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að halda fjölskylduráði frá umræðu um málið þar til nú og taka ákvarðanir án samráðs við fjölskylduráð í máli sem heyrir undir ráðið. Meirihlutinn ber því alla ábyrgð þeim vandræðagangi sem nú er kominn upp vegna málsins.
Fulltrúi Viðreisnar tekur undir bókun frá fulltrúa Samfylkingarinnar.
Fulltrúi Miðflokksins bókar eftirfarandi. Nú liggur fyrir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur klofnað í afstöðu sinni til þessa máls. Fulltrúi Miðflokksins hefur fullan skilning á þeim forsendubresti sem orðið hefur á samningi um sérhæfða akstursþjónstu og skóla- og frístundaakstur. Tekjufall varð hjá Hópbílum, vegna færri ferða vegna COVID19. Fulltrúa Miðflokksins þykir hins vegar óeðlilegt að tekjufall samningsaðila þ.e. Hópbíla ehf. séu að fullu bættar þ.e. 100% fyrir óeknar ferðir fyrir árið 2021. Í samningi þeim sem í gildi er milli aðila segir um óviðráðanleg atvik ? Force Majeure í lið 1.5.14: Hvorki seljandi né kaupandi verða krafðir um bætur ef óviðráðanleg atvik (force majeure) sem hvorugum aðila verður kennt um svo sem styrjöld, eldsvoði, náttúruhamfari, verkföll, verkbönn eða annað þess hátta koma í veg fyrir efndir samnings þessa. Fulltrúi Miðflokksins tekur því undir bókun Helgu Ingólfsdóttur fulltrúa Sjálfstæðisflokks í fjölskylduráði. Því tekur fulltrúi Miðflokksins neikvætt í erindið.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Kristjana Ósk Jónsdóttir bókar: Ég harma að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð í Fjölskylduráði fyrr. Og tek ekki afstöðu.
Fjölskylduráð vísar erindinu til bæjarráðs til afgreiðslu.
Svar

Faraldurinn hefur haft áhrif á samfélagið allt síðustu rúm tvö ár. Ríki og sveitarfélög hafa brugðist við með stuðningi við heimili, fyrirtæki og í raun samfélagið allt. Erindið hefur fengið umfjöllun í fjölskylduráði. Núverandi kerfi akstursþjónustunnar er byggt upp með þeim hætti að allir þeir bílar sem tilteknir eru í útboðslýsingu þurfa að vera til staðar og mannaðir. Ólíkt því sem áður var, fyrir þann samning sem hér um ræðir, þegar greitt var fyrir hvern bíl sama hvort þar væri einn eða fjórir. Nú er greitt pr. mann og slíkt kerfi úrskýrir þann vanda sem þjónustan stendur frammi fyrir vegna faraldursins. Bíll þarf að vera til staðar hvort sem um er að ræða einn einstakling eða fjóra. Á þeim forsendum samþykkir bæjarráð erindið að hluta, auk þess sem hér er um að ræða mjög mikilvæga þjónustu fyrir okkar viðkvæmustu hópa sem á hana treysta. Það er brýnt að hún haldi áfram óskert og örugg á meðan samfélagið allt er enn að jafna sig af afleiðingum heimsfaraldursins. Beiðni fyrirtækisins hljóðar upp á 32 milljónir króna samkvæmt framlögðum gögnum og er fjármálastjóra falið að ljúka málinu í samræmi við það en draga frá afskriftir sem nema um 14.5 milljónum króna. Vísað til viðaukagerðar.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði óskar bókað: Varðandi sérhæfða akstursþjónustu og skóla- og frístundaakstur, tekjufall vegna Covid.

Það er miður að uppi sé ágreiningur um afgreiðslu málsins en ljóst er að meirihuti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra er klofin í sinni afstöðu. Ágreiningur meirihlutaflokkanna hefur ekki komið fram í umræðum á fundum bæjarráðs og var því ekki ljóst að bæjarfulltrúar meirihlutans stæðu ekki allir á bak við afgreiðsluna.

Að öðru leyti tekur undirrituð undir bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í fjölskylduráði.

Adda María Jóhannsdóttir