Skipulags- og byggingarráð samþykkir að hefja undirbúning á breytingu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 á reit sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni í samræmi við skipulagslög og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.
Fulltrúi Bæjarlistans mótmælir enn og aftur ráðagerð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að skipuleggja 500 íbúða byggð á reitnum Hraun-vestur Gjótur. Um er að ræða stórfellda breytingu á reitnum sem merktur er ÍB2 í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Búið er að skipta reitnum upp í tvennt, annars vegar reit ÍB2 og hins vegar ÍB14 þar sem ætlunin er að byggja íbúðir fyrir allt að 1.500 manns. Í greinargerðinni með aðalskipulagsbreytingunni er reynt að tína til haldlítil rök fyrir þessu mikla byggingarmagni. Reynt er m.a. að telja fólki trú um að hér sé á ferðinni átak í þéttingu byggðar sem byggi á sameiginlegri ákvörðun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Já ? fyrr má nú rota en dauðrota. Eðlileg þétting byggðar er eitt en fyrirætlan meirihlutans á ekkert skylt við skynsemi. Þetta mikla byggingarmagn á litlum reit yrði stórslys ef af verður. Ég skora á bæjaryfirvöld að afstýra þessu. Rétt er að halda því til haga að meirihlutinn hefur ekki ennþá svarað því hver bað um þessi ósköp.