Hraun vestur, aðalskipulag breyting
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1866
17. mars, 2021
Annað
Fyrirspurn
7.liður úr fundagerð skipulags- og byggingaráðs frá 9.mars sl. Tekin til umræðu endurskoðun á landnotkun reits sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni.
Skipulags- og byggingarráð samþykkir að hefja undirbúning á breytingu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2025 á reit sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni í samræmi við skipulagslög og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.
Fulltrúi Bæjarlistans mótmælir enn og aftur ráðagerð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að skipuleggja 500 íbúða byggð á reitnum Hraun-vestur Gjótur. Um er að ræða stórfellda breytingu á reitnum sem merktur er ÍB2 í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Búið er að skipta reitnum upp í tvennt, annars vegar reit ÍB2 og hins vegar ÍB14 þar sem ætlunin er að byggja íbúðir fyrir allt að 1.500 manns. Í greinargerðinni með aðalskipulagsbreytingunni er reynt að tína til haldlítil rök fyrir þessu mikla byggingarmagni. Reynt er m.a. að telja fólki trú um að hér sé á ferðinni átak í þéttingu byggðar sem byggi á sameiginlegri ákvörðun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Já ? fyrr má nú rota en dauðrota. Eðlileg þétting byggðar er eitt en fyrirætlan meirihlutans á ekkert skylt við skynsemi. Þetta mikla byggingarmagn á litlum reit yrði stórslys ef af verður. Ég skora á bæjaryfirvöld að afstýra þessu. Rétt er að halda því til haga að meirihlutinn hefur ekki ennþá svarað því hver bað um þessi ósköp.
Svar

Til máls tekur Ingi Tómasson.

Einnig tekur Adda María Jóhannsdóttir til máls. Ingi Tómasson kemur til andsvars og svarar Adda María andsvari.

Þá tekur Birgir Örn Guðjónsson til máls.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs með 9 greiddum atkvæðum, en fulltrúar Bæjarlistans og Viðreinsar greiða atkvæði gegn tillögunni.

Birgir Örn kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Bæjarlistans í Bæjarstjórn tekur undir bókun fulltrúa listans í skipulags- og byggingaráði þar sem hann gagnrýnir harðlega gífulega aukningu á bygginarmagni innan reits ÍB14 í breyttu aðalskipulagi á reitnum Hraun- vestur gjótur. Þétting byggðar er í eðli sínu jákvæð og eðlileg þróun innan sveitafélagsins en að ætla að koma allt að 500 íbúðum í allt að átta hæða háum blokkum á 2,6 ha svæði er allt of langt gengið í þeim málum. Því getur fulltrúinn ekki samþykkt þessa breytingu á aðalskipulagi.

Jón Ingi Hákonarson kemur að svoðhljóðandi bókun:
Bæjarfulltrúi Viðreisnar bókar eftirfarandi
Þessi vegferð sem meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur verið á, við skipulag Hraun Vestur er mikið glapræði. Horfið frá nútímalegu miðborgarskipulagi til úthverfaskipulags síðustu aldar. Þróunarverkefnið hefur þróast á þann hátt sem fulltrúar Viðreisnar hafa varað við allan tímann. Heildarmyndinni er kastað fyrir róða. Þetta verkefni er birtingarmynd allra þeirra vankanta sem hefur hrjáð skipulagsmál í Hafnarfirði til margra áratuga. Farið er af stað með áhugaverðar og spennandi hugmyndir í rammaskipulagi til að fá jákvæð viðbrögð og afla verkefnum fylgis. Ekki er farið í efnahagshluta skipulagsmála og reiknað út hvað verkefnin munu kosta þannig að fyrir liggi upplýsingar um hvað fermetraverð þurfi að vera hátt til að verkefnið borgi sig. Það er aftur á móti gert af verktökum eftir á og koma því of oft óskir um aukið byggingarmagn og breytingar til að verkefnið geti „borið sig fjárhagslega“. Þessar óskir eru yfirleitt samþykktar hugsunarlaust í nafni skynsemi og minniháttar breytinga, sem er eins fjarri lagi og hugsast getur.
Í gildandi aðalskipulagi er stefnt að því að fullnýta byggingarmöguleika miðlægra svæða. Fyrirliggjandi breytingatillaga meirihlutans felur hins vegar í sér ofnýtingu þar sem fjölga á íbúðum úr 60 í 560 sbr. bls. 8 í greinargerð með breytingatillögunni.
Í aðalskipulagi á að móta heildarstefnu sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu. Það á ekki að hlaupa til og breyta þeirri stefnu eftir hentugleika einstaka fjárfesta.
Með því að hlaupa eftir kröfum einstakra lóðarhafa á þennan hátt, missir bæjarstjórn tökin á skipulaginu og í stað þess að vinna eftir vel ígrundaðri heildastefnu í aðalskipulagi, verður uppbygging nánast stjórnlaus og mun á endanum leiða til þess að íbúðafjöldi verður ekki í neinu samræmi við þá innviði sem eru til staðar eða hægt er að byggja upp á svæðinu.

Eins og þetta mál lítur út í dag er ljóst að það mun falla í skaut Hafnarfjarðarbæjar að kaupa síðasta reitinn á Hraun Vestur til að koma fyrir þeirri þjónustu, eins og skóla og leikskóla og grænum svæðum. Eigendur síðasta reitsins munu hafa öll tromp á sinni hendi og bæjaryfirvöld munu neyðast til að kaupa þennan reit á miklu yfirverði.
Hér eru almannahagsmunum enn og aftur kastað fyrir róða fyrir grímulausa hagsmunagæslu til handa sérhagmunaaðilum.
Hið spennandi fimm mínútna hverfi á Hraun Vestur er ekki lengur hugmyndin sem farið var af stað með. Þetta er eitthvað allt annað.