Grunnskólar, tíðavörur, aðgengilegar, gjaldfrjálsar, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3573
6. maí, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúa Viðreisnar:
Viðreisn gerir það að tillögu sinni að tíðavörur verði aðgengilegar og gjaldfrjálsar í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar. Á Íslandi sem og víða erlendis hefur umræðan um fríar tíðavörur á almenningssalernum orðið meira áberandi á undanförnum misserum. Fólk sem hefur blæðingar hefur almennt ekki val um hvort og hvenær blæðingar hefjast. Því hafa ýmsir hópar kallað eftir því að tíðavörur verði taldar til sama flokks og aðrar hreinlætisvörur s.s. salernispappír og handsápa á almennum salernum. Það hefur þó enn ekki verið samþykkt með lögum. Kynþroskaskeiðið getur verið viðkvæmur og flókinn tími fyrir börn og ungmenni á margan hátt. Sum börn eru afar ung þegar kynþroskatímabilið hefst en það getur jafnvel munað 5-6 árum á milli einstaklinga hvenær ferlið fer af stað. Þegar blæðingar eru byrjaðar er algengt að fyrstu árin séu þær óreglulegar og mismiklar. Það getur aukið verulega á kvíða og streitu ungra einstaklinga að óttast að byrja á blæðingum í skólanum eða að þurfa að fara á salernið og hafa ekki tíðavörur meðferðis. Í Reykjavík hófst tilraunaverkefni í nokkrum skólum og félagsmiðstöðvum árið 2018 og hefur tekist vel og þykir nemendum þar vera mikið öryggi fólgið í því að geta gengið að tíðarvörum vísum ef á þarf að halda.
Svar

Bæjarráð vísar fyrirliggjandi tillögu til umsagnar hjá mennta- og lýðheilsusviði.