Sveitarstjórnarkosningar 2022, kjörstaðir
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1882
12. janúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
2.liður úr fundargerð forsetanefndar frá 10.janúar sl. Til afgreiðslu
Forsetanefnd leggur til að við sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði 14. maí 2022 verði starfræktir tveir kjörstaðir, sem henti vel dreifingu íbúðabyggðar í bænum: Lækjarskóli og íþróttamiðstöðin Ásvöllum.
Forsetanefnd þakkar starfsfólki fyrir góða vinnu við undirbúning málsins.
Adda María Jóhannsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:
Um leið og fulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því að loksins eigi að tryggja kjörstað á Völlunum eru það ákveðin vonbrigði að kjörstöðum hafi ekki verið fjölgað í a.m.k. þrjá.
Til samanburðar hefur Reykjavíkurborg fjölgað kjörstöðum til muna með það að markmiði að bæta aðgengi kjósenda. Þar hefur það verið óopinbert markmið að kjörstaðir séu í göngufæri og geta um 84% íbúa borgarinnar gengið á kjörstað og heim aftur á 30 mínútum.
Engu að síður er þessi breyting til mikilla bóta og rétt að fagna því.
Adda María Jóhannsdóttir
Svar

Jón Ingi Hákonarson tekur við fundarstjórn.

Til máls taka Kristinn Andersen, Adda María Jóhannsdóttir, Guðlaug Kristjánsdóttir og Sigurður Þ. Ragnarsson. Rósa Guðbjartsdóttir kemur til andsvars við ræðu Sigurðar.

Þá tekur Kristinn Andersen til máls öðru sinni og tekur svo fundarstjórn að nýju.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu Forsetanefndar.

Adda María kemur að svohljóðandi bókun:

Frá árinu 2016 hafa fulltrúar Samfylkingarinnar ítrekað lagt fram tillögur þess efnis að staðsetning kjörstaða verði endurskoðuð eða þeim fjölgað. Kjördeildir fjölmennra hverfa á Völlum og í Skarðshlíð hafa verið í Norðurbæ og því langt að sækja fyrir íbúa þessara hverfa.
Því fögnum við tillögu forsetanefndar um að stefnt sé að því að tryggja aðgengi þessara íbúa með kjörstað á Völlum. Á sama tíma eru það vonbrigði að kjörstöðum hafi ekki verið fjölgað. Mestur fjöldi kjósenda er í Norðurbæ-Vesturbæ annars vegar og á Völlum-Skarðshlíð hins vegar. Betri kostur hefði því verið að bæta kjörstað á Völlum við þá tvo sem fyrir hafa verið nýttir.
Við teljum mikilvægt fyrir lýðræðið að aðgengi kjósenda að kjörfundi sé gott. Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg markvisst stefnt að því að bæta aðgengi kjósenda að kjörfundi. Stór þáttur í því hefur verið fjölgun kjörstaða og er nú einn kjörstaður á hverja 5,500 íbúa, eða þar um bil, og um 84% íbúa geta gengið á kjörstað og heim aftur á 30 mínútum. Til að ná sama markmiði þyrftu kjörstaðir í Hafnarfirði að vera fimm eða sex.
Við styðjum þá tillögu sem forsetanefnd leggur til en leggjum engu að síður til að hugað verði að fjölgun kjörstaða til framtíðar.

Adda María Jóhannsdóttir
Sigrún Sverrisdóttir

Einnig kemur Kristinn Andersen að svohljóðandi bókun fyrir hönd meirihlutans:

Nýtt fyrirkomulag kjörstaða, í Lækjarskóla og á Ásvöllum, verður almennt til mikilla bóta fyrir kjósendur í Hafnarfirði. Tryggt er að fjarlægð frá heimili á kjörstað sé mest um 2 km, fyrir flesta íbúa verður leiðin mun styttri og aðgengi gott. Miðað við staðsetningu kjörstaðanna skiptist íbúafjöldi milli þeirra nokkurn veginn til helminga. Að Reykjavík undanskilinni hafa kjörstaðir í öðrum sveitarfélögum ekki verið fleiri en tveir og með hliðsjón af íbúadreifingu í Hafnarfirði hefur verið sýnt fram á að það fyrirkomulag sem hér er lagt til hentar mjög vel.

Þá kemur Guðlaug Kristjánsdóttir að svohljóðandi bókun:

Bæjarfulltrúi Bæjarlistans fagnar því skrefi sem nú er tekið í að staðsetja kjörfund í Vallahverfi og ítrekar að halda þurfi áfram að rýna aðgengi bæjarbúa að kjörstöðum á næstu árum.
Mikilvægt er að þessari breytingu verði fylgt vel eftir með öflugri kynningu og umfjöllun auk þess sem stutt verði við fyrirkomulag mönnunar og utanumhalds kosninga að öðru leyti.

Sigurður Þ. Ragnarsson tekur undir bókun meirihlutans.

Einnig tekur Jón Ingi Hákonarson undir bókun meirihlutans.