Samfylkingin, tillögur og fyrirspurnir
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3606
28. júlí, 2022
Annað
Fyrirspurn
Lagðar fram tillögur og fyrirspurnir bæjarfulltrúa Samfylkingar.
1. Nýir starfshópar. Tillaga Samfylkingarinnar: A) Skipaður verði sérstakur undirbúnings/framkvæmdahópur vegna áforma um flutning Tækniskólans á hafnarsvæðið. Ljóst er að málið er risavaxið og kostnaður mun hlaupa á milljörðum fyrir Hafnarfjörð og lúta að skipulagi hafnarsvæðis, uppkaupum, breytingum á umferðarmannvirkjum og fleiru. Hópurinn verði fimm manna og kosinn af bæjarráði/bæjarstjórn og hafi náið samráð við viðeigandi nefndir og ráð og aðra hagsmunaaðila. Hópurinn taki strax til starfa og skili fyrsta áliti til bæjarstjórnar fyrir 1.desember næstkomandi. B) Skipaður verði fimm manna starfshópur vegna áforma um mikla uppbyggingu í Straumsvík vegna Carbix og nauðsynlegra hafnargerðar í því samhengi. Um spennandi verkefni er að ræða og mikilvægt að heildaryfirsýn fáist í málinu hið allra fyrsta. Hópurinn hafi það verkefni að kortleggja stöðu mála, leggja um framkvæmdaáætlun, auk þess sem fjárhagslegar forsendur verði greindar. Hann hafi samráð við hafnarstjórn og aðra hlutaðeigandi aðila. Áfangaskýrslu verði skilað frá hópnum 1.desember næstkomandi. 2. Fyrirspurn: Yfirlit yfir lagfæringar og endurbætur á Suðurbæjarlaug, kostnaðaráætlun og stöðu verks og verklok. Og upplýst verði hversu oft og lengi laugin hefur verið lokuð almenningi síðustu 4 árin.
3. Skilað verði yfirliti yfir lóðarhafa, þar sem byggingarframkvæmdir eru á verkstigi. Þar verði einnig greint frá verkstöðu framkvæmda. Þá verði upplýst um stöðu nýrra lóða, svo sem í Áslandi 4 og hvenær áformað er að unnt verði að auglýsa þær lausar til umsóknar. Ennfremur stöðu gatnagerðarframkvæmda af bæjarins hálfu á nýbyggingarsvæðum.
4. Álagning fasteignagjalda vegna 2023 í ljósi stórhækkunar fasteignamats.
Svar

Fyrirliggjandi tillögur eru lagðar fram og verða afgreiddar síðar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja auk þess fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að álagningstuðlar fasteignaskatta á einstaklinga og atvinnufyrirtæki verði lækkaðir fyrir árið 2023, þannig mikil hækkun fasteignamats (26,8% á fasteignir einstaklinga) leiði ekki sjálfkrafa til stóhækkunar á fasteignaskatti. Við það verði miðað að álögur verði þær sömu á árinu 2023 og voru á árinu 2022, að teknu tilliti til almennra verðlagsbreytinga."

Eins og kunnugt er hefur verið tilkynnt um verulega hækkun fasteignamats, að meðaltali um 26% í Hafnarfirði, sem að óbreyttu mun taka gildi frá og með áramótum 2023. Hér er um verulega íþyngjandi álögur fyrir fasteignaeigendur í bænum, einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Almennt er talið að gríðarleg hækkun fasteignaverðs sé afleiðing verðbólgu umframeftirspurn og of lítið framboð fasteigna. Verðbólga á fleygiferð hefur þarna ennfremur neikvæð áhrif. Lítið framboð húseigna í Hafnarfirði á umliðnum árum, sem leiddi m.a. til fólksfækkun ar 2020, er þarna mikill áhrifavaldur. Vonir standa til þess að um "bóluhækkun" sé að ræða, sem muni ganga til baka á næstu misserum og fasteignaverð ná jafnvægi á nýjan leik. Og það leiði til jafnvægis á fasteignamati. Mikilvægt er hins vegar að verja skattgreiðendur ffyrir þessari sveiflu og því eigi Hafnarfjaðarbær að taka af öll tvímæli nú þegar og gefa bæjarbúum skýrt til kynna að auknar álögur verði ekki veruleiki á komandi ári. Í tillögunni er því gert ráð fyrir að við undirbúning fjárhagsáætlun bæjarins verði þessar forsendur borðliggjandi og öllum ljósar.

Fulltrúar meirihlutans fagna því að fulltrúar Samfylkingarinnar taki nú undir stefnu meirihlutans í álagningu fasteignagjalda. Eins og bæjarstjóri hefur þegar lýst yfir opinberlega er það stefna meirihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að lækka álagningarstuðla fasteignagjalda fyrir árið 2023 og koma þannig til móts fasteignaeigendur í bænum líkt og gert hefur verið undanfarin ár þegar hækkun fasteignamats hefur orðið.

Bæjarráð samþykkir að tillögunni verði vísað í fjárhagsáætlunargerð ársins 2023. Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við atkvæðagreiðslu.

Fulltrúar Samfylkingar koma þá næst að svohljóðandi bókun:

Bókun meirihlutans svarar ekki tillögu Samfylkingarinnar, heldur er um óskilgreint fyrirheit að ræða um lækkun fasteignaskatts. Tillaga Samfylkingarinnar er skýr og afdráttarlaus. Meirihlutinn er augljóslega ekki tilbúinn til að senda skýr skilaboð til bæjarbúa um skattálögur komandi árs. Mun Samfylkingin fylgja því fast eftir að að efnt verði fyrirheit um að "núlla" út gríðarlega hækkun fasteignamatsins við álögur komandi árs.

Fulltrúar meirihlutans koma þá næst að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans benda á að í nýjum málefnasamningi meirihlutans fyrir árin 2022-2026 er það skýrt tekið fram að haldið skuli áfram lækkun fasteignagjalda.