Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2023 og 2024-2026
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarráð nr. 3608
8. september, 2022
Annað
Fyrirspurn
Tekið til umræðu. Guðmundur Sverrisson mætir til fundarins.
Svar

Til umræðu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar minna tillögu jafnaðarmanna á fundi bæjarráðs þann 28. júlí sl. um að álagningarstuðlar fasteignaskatta á einstaklinga og atvinnufyrirtæki verði lækkaðir fyrir árið 2023 svo að mikil hækkun fasteignamats, sem var 22% á íbúðarhúsnæði og 6,8% á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði, leiði ekki sjálfkrafa til stórhækkunar á fasteignaskatti. Í tillögunni var miðað við að álögur verði þær sömu á árinu 2023 og þær eru á yfirstandandi ári að teknu tilliti til almennra verðlagsbreytinga. Fulltrúar meirihlutans treystu sér ekki til þess að samþykkja þessa tillögu á áðurnefndum fundi bæjarráðs og nú þegar fjárhagsáætlunarvinnan er að fara af stað er meirihlutinn heldur ekki tilbúinn að taka af öll tvímæli og senda bæjarbúum skýr skilaboð um að auknar álögur verði ekki að veruleika á næsta ári.

Fulltrúar meirihlutans bóka eftirfarandi:

Stefna meirihlutans er skýr í þessum efnum. Fulltrúar meirihlutans ítreka að í nýjum málefnasamningi meirihlutans fyrir árin 2022-2026 er það skýrt tekið fram að haldið skuli áfram lækkun fasteignagjalda líkt og undanfarin ár. Fulltrúar meirihlutans gáfu einnig skýr skilaboð þar um, í byrjun júní síðastliðnum þegar hækkað fasteignamat lá fyrir, að ekki yrði breyting á stefnu meirihlutans um fasteignagjöld og álögur á íbúa og fyrirtæki.

Fulltrúi Viðreisnar bókar:

Það er ljóst að forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 eru bundnar mun meiri óvissu en undanfarin ár sökum hækkunar verðlags og kjarasamninga. Því er mikilvægt að leita allra leiða til að halda rekstri bæjarins í sem mestu jafnvægi á næsta ári.