Málefni fólks með fötlun
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Bæjarstjórn nr. 1897
26. október, 2022
Annað
Fyrirspurn
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi ályktunartillögu:
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir yfir vonbrigðum að ríkisstjórnin hefur enn ekki lagt fram neinar áætlanir eða gefið sveitarfélögunum skýr fyrirheit um að hún muni tryggja fjármögnun málaflokks fólks með fötlun. Hér er um að ræða mikilvæga grunnþjónustu og því nauðsynlegt að fjármagn til hennar sé tryggt. Greiningar á vegum starfshóps félags- og barnamálaráðherra hafa leitt í ljós að halli á rekstri málaflokksins árið 2020 var tæpir 9 milljarðar og gert er ráð fyrir að hann verði 12-13 milljarðar á árinu 2021. Málaflokkurinn er því vanfjármagnaður af hálfu ríkisins. Rekstur margra sveitarfélaga hefur verið þungur á síðustu árum. Hafnarfjörður þar engin undantekning og var bærinn rekinn með 1,5 milljarða tapi á fyrstu 6 mánuðum þessa árs. Eitt stærsta verkefni sveitarfélaga í fjárhagsáætlunargerð næsta árs verður því að standa vörð um þessa grunnþjónustu sem margt fólk í viðkvæmri stöðu treystir á. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar því á ríkisstjórnina að bregðast við vandanum nú þegar með skýrri áætlun um hvernig fjármögnun þessarar mikilvægu grunnþjónustu verður tryggð. Koma verður í veg fyrir að fólk með fötlun verði að pólitísku bitbeini í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og það verður einungis gert með því að ríkisstjórnin tryggi fjármögnun verkefnisins.
Svar

Til máls tekur Jón Grétar Þórsson.

Einnig Jón Ingi Hákonarson. Til andsvars kemur Rósa Guðbjartsdóttir sem og Guðmundur Árni Stefánsson.

Rósa Guðbjartsdóttir tekur þá til máls og Guðmundur Árni kemur til andsvars sem Rósa svarar.

Þá tekur Margrét Vala Marteinsdóttir til máls. Einnig tekur Árni Rúnar til máls.

Forseti ber þá næst upp fyrirliggjandi tillögu að ályktun og er hún samþykkt með 5 atkvæðum frá fulltrúum Samfylkingar og Viðreisnar en fulltrúar meirihluta sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Margrét Vala Marteinsdóttir kemur að svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks bóka eftirfarandi:


Málaflokkur fatlaðs fólks og fjármögnun hans, var í forgrunni á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga nýlega og kom þar meðal annars fram að vinna við að auka fjárframlög til málaflokksins væri á lokametrunum.
Eins og kunnugt er vinnur nú starfshópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra að tillögum að kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er stefnt að því að þær líti dagsins ljós í desember næstkomandi.

Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru bjartsýnir á að sú vinna og tillögur skili góðri niðurstöðu fyrir sveitarfélögin.

Brýnt er að gæta varfærnis í opinberri umræðu um málaflokkinn, m.a í ályktunum, af virðingu við þjónustunotendur málaflokksins.