Skipulags- og byggingarráð samþykkir svör við athugasemdum og gerir að sínum. Skipulags- og byggingarráð samþykkir að ljúka deiliskipulaginu með vísan til 42. gr. laga nr. 123/2010.
Skipulags- og byggingarráð gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir breytingu á deiliskipulagi að Völlum 7, dags. 19. febrúar 2013 og að deiliskipulaginu verði lokið í samræmi við 42. gr. laga nr. 123/2010."
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gera eftirfarandi bókun: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja breytingarnar sem nú hafa verið gerðar á deiliskipulagi nýs hverfis á Völlum 7, framtíðarbyggingarsvæði bæjarins. En tekið skal skýrt fram að áður en til úthlutunar á Völlum 7 kemur þarf hagkvæmniúttekt að liggja fyrir. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir slíkri úttekt á síðasta ári, þar sem m.a. yrði tekið tillit til allra kostnaðarþátta við uppbyggingu þjónustu við íbúa hins nýja hverfis, ásamt því að fyrir liggi hvenær Ásvallabraut verður tekin í notkun til að tryggja viðunandi samgöngur og vegtengingar við Ásland og Vallasvæðið í heild. Einnig er brýnt að lokið verði frágangi við gatnagerð og gangstéttir í öðrum nýlegum hverfum bæjarins, áður en til úthlutunar og uppbyggingar nýs hverfis kemur. Ennfremur er mikilvægt að taka mið af íbúaþróun, mannfjöldaspá og fyrirliggjandi magni af húsnæði í byggingu og hver áætluð þörf er fyrir nýbyggingar næstu árin þegar ákvörðun um úthlutun lóða í nýju hverfi er tekin.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna benda á að um þegar skipulagt hverfi er að ræða. Þar af leiðandi er kostnaður við framkvæmdir þekktur og er verið að vinna að samantekt. Einnig hefur verið unnið að áætlun varðandi vegtengingar og hefur SBH þegar samþykkt að hafin verði vinna við veghönnun Ásvallabrautar.