Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs dags. 6. nóvember 2013 vegna svohljóðandi bókunar menningar- og ferðamálaráðs frá 28. október 2013 vegna tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjölgun útilistaverka í eystri hluta borgarinnar: "Menningar- og ferðmálaráð telur það fagnaðarefni að komin sé þverpólitísk samstaða um að list í nærumhverfi íbúa skiptir verulega miklu máli. Í nýsamþykktu aðalskipulagi segir að auka skuli veg listarinnar í daglegu lífi fólks í borgarskipulaginu.Menningar- og ferðamálaráð tekur undir þau sjónarmið enda er það eitt af markmiðum menningarstefnu Reykjavíkurborgar að ásýnd borgarinnar endurspegli skapandi hugsun. Telur menningar- og ferðmálaráð því mikil tækifæri fólgin í að leggja áherslu á listina í hverfaskipulaginu sem nú er í vinnslu. Ef greindar eru tölur yfir þau 144 listaverk sem borgina prýða má sjá að að meðaltali eru um 3-5 listaverk í hverju hverfi borgarinnar, að undanskildum miðbænum. Í hverfum 105 og 104 eru tölurnar hærri, 105 sökum þess að þar er að finna Ámundarsafn og 104 þar sem talsvert er af útilistaverkum í Grasagarðinum. Ákveðin sérsjónarmið gilda um miðbæinn líkt og miðbæ hverrar borgar, sem er hjarta höfuðborgarinnar, megináfangastaður borgarbúa og þeirra innlendu og erlendu gesta sem hana sækja. Stefna borgarinnar hefur verið að fjölga útilistaverkum utan miðborgarinnar svo sem tvö ný verk í Breiðholti og sextán verk í Hallsteinsgarði í Grafarvogi bera vitni um. Jafnframt hefur sviðsstjóra og safnsstjóra Listasafns Reykjavíkur verið falið að kanna hvaða möguleika við stefnumótun um list í opinberu rými felast samstarfi við umhverfis- og skipulagsráð í tengslum við yfirstandandi vinnu við Hverfaskipulag."