Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.4 Fossvogshverfi-Blesugróf, kynning
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 125
12. janúar, 2022
Annað
Fyrirspurn
Kynning á stöðu vinnutillögu Hverfisskipulags fyrir Háaleiti-Bústaði hverfi 5.4, Fossvogshverfi-Blesugróf að loknum athugasemdafresti. Einnig er lögð fram könnun Gallups vegna nýs Hverfisskipulags Háaleitis- Bústaða, dags. í nóvember 2021.
Svar

Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Við fögnum þeirri miklu og blómlegu umræðu sem hefur átt sér stað um vinnutillögur að hverfisskipulagi Háaleitis og Bústaða. Opið hús var í Austurveri, sérstakur samráðsfundur haldinn, farið í þrjár göngur um hverfið, gerð var Gallup-könnun, þúsundir heimsóttu heimasíðu hverfisskipulagsins, íbúasamtök boðuðu til fundar um skipulagið og mörg hundruð manns tóku þátt í netsamráði. Næsta skref er að vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa. Ljóst er að tillögur að þéttingu byggðar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ hafa mætt andstöðu meðal margra íbúa í hverfinu. Mikilvægt er að hlusta á þessar raddir íbúa og réttast er að leggja þessar hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg til hliðar og leita annarra lausna sem byggja á breiðari sátt og draga úr umferðarhraða, bæta hljóðvist og tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á svæðinu eins og kallað hefur verið eftir.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Meirihluti íbúa er á móti áherslum í skipulagi við Bústaðaveg hvort sem um er að ræða þéttingu byggðar, hverfiskjörnum eða samgöngur. Af þeim sem tóku afstöðu voru 2/3 íbúa á móti áherslum í tillögunni varðandi þéttingu byggðar við Bústaðaveg í grennd við Grímsbæ. Ljóst er að ítarlegt samráð hefur átt sér stað þó ekki hafi verið fallist á lengingu athugasemdafrests sem íbúar höfðu þó sérstaklega óskað eftir. Mikil andstaða er jafnframt við vinnutillögur um breytt skipulag við gatnamót Miklubraut og Háaleitisbrautar. Fullt tilefni er því til að endurskoða fyrirliggjandi tillögur enda eru þær vægast sagt mjög umdeildar meðal íbúa.
  • Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
    Mikil gagnrýni hefur komið fram á nýtt hverfaskipulag Háleiti-Bústaðir og ber líklega opinn fundur um málið þar sem hæst bar að embættismaður borgarinnar gaf þá yfirlýsingu að fólk á aldrinum 60 ára + væri ómarktækt í skoðunum í málinu. Nú er lögð fram skoðanakönnun sem tekin var 15.-30. nóvember sl. Skoðanakönnunin er borgaryfirvöldum ekki í hag því tæplega 45% svaranda leist illa á tillögurnar, hvorki vel né illa 24,5% og þeim sem leist vel á tillögurnar voru tæp 31%. Samt er haldið áfram af fullum þunga.
  • Flokkur fólksins
    Í athugasemdum koma fram bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð. Sumir tala um svart/hvíta niðurstöðu. Tillögur eru um ýmsar leiðir til þéttingar og óttast margir að þétt verði of mikið. Mikil vinna er fram undan og verður hún að vera unnin með íbúunum eins og kostur er. Þó nokkrir tjá sig um áhyggjur sínar að komast heim og að heiman ef fjöldi íbúa eykst í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins finnst mikilvægt að skoða sem fyrst hverjir myndu nýta sér að hækka- stækka hús sín til að átta sig á mögulegum þrengslum. Almennt er fólk ekki alfarið á móti því að þétta en óttast hið mikla byggingarmagn sem tillögurnar ganga út á. Aðrir vilja að hugað sé að útlitinu enda er hér um gróið hverfi að ræða. Hugmyndir frá íbúum eru margar áhugaverður og ættu skipulagsyfirvöld að leggja sig fram um að hlusta og vinna með íbúum hverfisins að frekari útfærslum. Á íbúana verður að hlusta og taka tillit til sjónarmiða sem margir standa á bak við.