Hverfisskipulag, Breiðholt 6.1 Neðra Breiðholt, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 2 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 122
1. desember, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.1 Neðra Breiðholt, dags. 30. apríl 2021, ásamt almennri greinargerð og stefnu, dags. 30. apríl 2021, og skipulagsskilmálum, dags. 30. maí 2021. Einnig er lögð fram verklýsing fyrir hverfisskipulag dags. 25. mars 2015, lagf. 4. maí 2015, skýrsla um íbúaþátttöku og samráð dags. 7. desember 2020, athugasemdir, ábendingar og spurningar sem bárust á kynningartíma vinnslutillagna hverfisskipulags fyrir Breiðholt á tímabilinu 16. júlí til 18. september 2020, samantekt á úrvinnslu athugasemda og ábendinga frá íbúum og hagsmunaaðilum dags. 26. maí 2021 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhluta 6, Breiðholt, skýrsla 216 frá árinu 2021. Tillagan var auglýst frá 29. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir/umsögn: Guðmundur Svafarsson dags. 21. júní 2021, Heiðdís Schell Traustadóttir dags. 26. júní 2021, bókun fulltrúa í íbúaráði Breiðholts dags. 20. ágúst 2021, Vegagerðin dags. 24. ágúst 2021 og svarbréf frá skipulagsdeild Kópavogs 26. ágúst 2021 ásamt umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar 13. ágúst 2021. Einnig eru lögð fram svör við athugasemdum dags. 26. nóvember 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. nóvember 2021.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði. 
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Með hverfiskipulaginu er mótuð heildstæð sýn fyrir Breiðholtið. Reykjavíkurborg er að vinna hverfisskipulag fyrir öll hverfi til þess meðal annars að auka gagnsæi og jafnræði í kringum skipulagsheimildir og auðvelda fólki að gera breytingar á eigin húsnæði. Hverfisskipulagið skapar þannig skýra umgjörð um breytingar og viðbyggingar við núverandi húsnæði og einfaldar líf íbúa sem ætla að standa í framkvæmdum. Niðurstaðan er afrakstur víðtæks og metnaðarfulls samráðsferlis sem staðið hefur yfir frá árinu 2016. Komið er til móts við ákall íbúa um öflugri hverfiskjarna með þróun Arnarbakka og Völvufells og fleiri þróunarreita sem unnir hafa verið samhliða gerð hverfisskipulagsins. Vetrargarðurinn fær sinn sess í skipulagi Seljahverfis sem og fyrirhuguð dansmiðstöð í Efra-Breiðholti. Við þökkum starfsfólki hverfisskipulags mikla og góða vinnu og fögnum því að það sé að verða að veruleika.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Hér er verið að rýmka almennar heimildir húseigenda í hverfinu og er margt af því til bóta. Athugasemdir vegna samgangna ber að virða og er mikilvægt að bætt verði úr sem allra fyrst til þeim til að létta á umferð. Þá skortir á að Mjóddin sé skipulögð í heild eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til. Rétt er að benda á að Elliðaárdalurinn er ekki heldur hluti þessa hverfisskipulags.
  • Flokkur fólksins
    Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. Vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða eru háðar leyfi frá Vegagerðinni. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta segir að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Og svo er athyglisvert að Kópavogur vill einnig hafa áhrif á skipulagið við Arnarnesveg og heimtar óbeint að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi meingölluðu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag sé að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðaárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag mun fara yfir mörkin í umferðarspá í umhverfismatinu frá 2003. Verður ekki að gera nýtt umhverfismat? Einnig má spyrja af hverju það hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?