-
Miðflokkur
Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni og á þeirri vinnu að vera lokið fyrir árslok 2024. Leggur ríkið til 100 milljónir og Reykjavíkurborg 100 milljónir. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið væri að undirbúning og byggingu nýs flugvallar, ef hann hugsanlega kæmi, þannig að hann geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur yrði tilbúinn. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því bæði kemur fram í greinargerð með frumvarpi um fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 og nú kynningu að gerð deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Ég kem til með að tilkynna stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis brot á samkomulaginu, enda hefur stjórnin þegar lagt fram fyrirspurn til borgarstjóra hvort samkomulagið haldi og óskað var eftir staðfestingu á sameiginlegum skilningi hans og samgönguráðherra að flugvöllurinn yrði tryggður í Vatnsmýrinni. Þetta eru fordæmalaus vinnubrögð og sýnir glöggt hversu borgarstjóri og meirihlutinn er veruleikafirrtur, ósvífinn og óheiðarlegur.
-
Flokkur fólksins
Það eru nokkur atriði sem fanga hug fulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að málefnum Skerjafjarðar. Það alvarlegasta er hvernig áætlað er að ganga á fjörurnar til að búa til land, eins og það skorti land. Flokkur fólksins óskar eftir að skipulagsyfirvöld láti fjörur borgarlandsins í friði. Í þessu sambandi má minna á að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Meirihlutinn ætlar samt að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum. Af hverju hafa vísindamenn ekki verið spurðir en vitað er að margir eru uggandi. Mengun er einnig mikið áhyggjuefni. Annað atriði er hversu lítið samtal skipulagsyfirvöld hafa átt við íbúa Skerjafjarðar um uppbyggingu þar. Enn og aftur er samráð hunsað. Loks er það umferðarmálin en það er aðeins sé ein leið í Skerjafjörðinn. Fyrir Covid-19 var umferðarþunginn vestur í bæ þungur, Hringbrautin, Suðurgatan og götur í kring. Með uppbyggingu í Skerjafirði er einfaldlega ekki séð hvernig umferðin geti gengið með fjölgun bíla sem óhjákvæmilega verður. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af þessum umferðarþunga. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni og framtíð staðsetningu flugvallarins er með öllu óráðin.
-
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Lóðarvilyrði eru háð endanlegu deiliskipulagi og því er ekki búið að úthluta lóðum, einungis skrifa undir lóðarvilyrði. Það hefur sýnt sig að það að hafa aðila líkt og stúdenta og verklýðsfélögin með í deiliskipulagsferlinum getur stytt skipulagsferlið og hjálpað til við uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Þessi hluti deiliskipulagsins kemur ekki nálægt strandlengjunni og er ekki háð umhverfismati. Deiliskipulagið verður kynnt vel, bæði í blöðum og á íbúafundi þar sem öllum gefst færi á að kynna sér tillöguna og koma með sínar athugasemdir. Í nýrri byggð í Skerjafirði er gert ráð fyrir þéttri lágreistri og nútímalegri randbyggð. Staðsetningin býður upp á fallegt náttúrulegt umhverfi við fallega strandlengju sem gefur frábæra möguleika til útivistar og umhverfisvænna samganga. Íbúðirnar verði fjölbreyttar að stærð og eignarformi og nýr grunnskóli mun þjóna hverfinu öllu. Við fögnum þessari löngu tímabærri uppbyggingu og hlökkum til framhaldsins.
-
Sjálfstæðisflokkur
Það er með ólíkindum að deiliskipulagsgerð fyrir nýja byggð í Skerjafirði sé komin á fulla ferð án vitundar og án nokkurs samráðs við íbúa í Skerjafirði og að búið sé að gefa lóðarvilyrði og úthluta lóðum á svæðinu án þess að nokkuð samráð hafi verið haft við íbúasamtök Skerjafjarðar en lóðarhöfum hins vegar boðið að koma að deiliskipulagsgerðinni. Það er augljóst mál að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur meiri áhuga á samráði við verktaka en íbúa borgarinnar. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað mótmælt fyrirhugaðri byggð og bent á að hún sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu.og aðeins ein umferðartenging við hverfið. Verði þetta deiliskipulag að veruleika mun Skerjafjörðurinn verða stærsta botnlangabyggð landsins með hátt í 5000 íbúum með tilheyrandi umferðarþunga. Þá er með ólíkindum að deiliskipulag sé keyrt í gegn áður en fram hefur farið umhverfismat vegna landfyllingar og olíumengaðs jarðvegs á svæðinu og vegna samkomulags ríkis og borgar um að Reykjavíkurflugvöllur geti þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er fullbúinn. Sömuleiðis liggur fyrir að fara á í gerð hverfisskipulag 2022 sem kallar á mikið samráð við íbúa varðandi skipulag hverfisins. Augljóst er að allt tal borgarstjórnarmeirihlutans um íbúalýðræði og umhverfisvernd er eingöngu til að skreyta sig með á tyllidögum.
-
Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
Verkefnið er í samræmi við gildandi aðalskipulag um uppbyggingu á svæðinu og í samræmi við samning ríkisins og Rvk frá 2013. Í nýrri byggð í Skerjafirði er gert ráð fyrir þéttri lágreistri og nútímalegri strandbyggð. Staðsetningin býður upp á fallegt náttúrulegt umhverfi við fallega strandlengju sem gefur frábæra möguleika til útivistar og umhverfisvænna samganga. Íbúðirnar verði fjölbreyttar að stærð og eignarformi og nýr grunnskóli mun þjóna hverfinu öllu. Við fögnum þessari löngu tímabærri uppbyggingu og hlökkum til framhaldsins.