Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag
Síðast Vísað til borgarráðs á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 97
10. mars, 2021
Annað
Fyrirspurn
Kynnt eru helstu efnisatriði innsendra athugasemda vegna deiliskipulagstillögunnar.
Gestir
Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 11:33 víkur Katrín Atladóttir af fundi.
  • - Kl. 11:34 tekur Valgerður Sigurðardóttir sæti á fundinum.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ótímabært að tekin sé endanlega ákvörðun um nýja byggð í Skerjafirði þar sem ýmsum rannsóknum og álitamálum er ólokið. Áformaðar landfyllingar eru komnar í umhverfismat sem er ólokið og því algerlega óvissa um stærð skipulagssvæðisins og þar með fjölda íbúða og íbúa. Þá er Náttúrufræðistofnun með það til skoðunar að strandlengjan við Skerjafjörð verði friðuð í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Loks hefur Vegagerðin óskað eftir að fram fari heildrænt samgöngumat en því er enn ólokið, en gert er ráð fyrir þreföldun íbúa í hverfinu með tilheyrandi álagi á umferð.
  • Miðflokkur
    Verið er að breyta aðalskipulagi í hinum svokallaða „Nýja Skerjafirði“. Málið er keyrt áfram af fullum þunga þrátt fyrir fjöldamargar vel rökstuddar og grafalvarlegar athugasemdir. Margt er enn á huldu um þetta svæði s.s. lögmætt gildi landfyllingar sem nú er í umhverfismati, olíumengun á svæðinu, ekkert tillit er tekið til öryggishlutverks Flugvallarins í Vatnsmýrinni en ljóst er að hann er ekki á förum miðað við umbrot á Reykjanesi undanfarnar vikur. Hvað þarf til – til að borgarstjóri og meirihlutinn opni augun og viðurkenni staðreyndir. Hollenska loft- og geimferðarstofnunin hefur gert alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina og lagði til að áhættumat yrði gert. Alþingi samþykkti árið 2004 að stefnt skuli að friðlýsingu fjöru og grunnsævis Skerjafjarðar og hefur Náttúrufræðistofnun áréttað þær hugmyndir. Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa allar í umsögnum til Reykjavíkurborgar undirstrikað verndargildi fjörunnar. Það er alveg ljóst að ef farið verður í þessar framkvæmdir eiga þær eftir að hafa mikinn umferðarþunga á framkvæmdatíma í för með sér sem hlýst af stórum vörubílum og steypubílum, bæði keyrslu í landfyllingu og ekki síður á uppbyggingartíma. Að auki er nú þegar búið að gefa vilyrði fyrir lóðum á reitnum og er það algjörlega fáheyrt.
  • Flokkur fólksins
    Þetta mál virðist engan veginn tilbúið að færast á næsta stig þar sem svo margt er óljóst og á eftir að koma í ljós. Svör skipulagsyfirvalda eru svolítið á þann veg að segja „þetta á eftir að koma í ljós“ Fermetrum hefur jú verið fækkað, dregið er úr byggingarmagni og landfyllingum. Engu að síður gætu t.d. framkvæmdir vegna undirbúnings leitt til þess að gerð verði óafturkræf mistök svo ekki sé minnst á kostnað. Skemmdar verða náttúrulegar fjörur. Bæta á fyllingu með fram flugvellinum, setja á landfyllingarkant. Fram kemur að endurbyggja á náttúrulega strönd, er sú strönd þá ekki orðin manngerð, ekki náttúruleg lengur? Hér er valin steypa á kostnað náttúru eins og víða í Reykjavík. Líkur hafa aukist á að Hvassahraun verði ekki kostur fyrir flugvöllinn þar sem Hvassahraun stendur á hættusvæði. Flugvöllurinn er því ekki að fara neitt, alla vega ekki í langri framtíð. Áhyggjuefnin eru mörg varðandi þetta framtíðarsvæði eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvoru tveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Sú viðbót, 1100 íbúðir mun væntanlega leiða til mikillar umferðir sem ekki er séð hvernig verður leyst.