Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 107
9. júní, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1. - Krossmýrartorg á Ártúnshöfða. Svæðið er um það bil 16 ha að stærð. Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu um 1570 íbúða, skóla, verslunar- og þjónustusvæði við Krossamýrartorg, almenningsrýmum, borgarlínu og borgarlínustöð. Samhliða skipulagsgerðinni er unnið að vistvottun skipulagsins samkvæmt forsendum vistvottunarkerfisins Breeam Communities.
Svar

Tillagan er lögð fram í samræmi við eftirfarandi gögn ráðgjafa frá Arkís arkitektum og ASK arkitektum:Almenn greinargerð fyrir svæði 1 (og svæði 2) dags. 4. júní 2021Skilmálar fyrir húsbyggingar og mannvirki á lóð  fyrir svæði 1. dags. 4. júní 2021Deiliskipulags- og skýringaruppdrættir dags. 4. júní 2021

Gestir
Björn Guðbrandsson frá Arkís, Páll Gunnlaugsson frá ASK, Þráinn Hauksson frá Landslagi, Ólöf Kristjánsdóttir frá Mannviti og Anna Guðrún Stefánsdóttir frá Verkís  taka sæti á fundinum undir þessum lið. Sólveig Sigurðardóttir, Hrafnhildur Sverrisdóttir, Lilja Grétarsdóttir, Birkir Ingibjartsson og Ólafur Melsted verkefnastjórar ásamt  Halldóri Eyjólfssyni frá Klasa taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Verið er að samþykkja í auglýsingu áfanga 1 og 2 af uppbyggingu við stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur í kringum Elliðavog og Ártúnshöfða. Áætlað er að á svæði þessa borgarhluta rísi allt að 8000 íbúðir sem munu hýsa álíka fjölda íbúa og Grafarvogur eða um 20.000 manns en á sjöfalt minna svæði. Um er að ræða fyrsta hverfi Reykjavíkur sem rís alfarið innan borgarmarkanna. Á svæðinu er gert ráð fyrir þéttri, blandaðri byggð sem gefur kost á búsetu, atvinnu og þjónustu innan hverfis. Jafnframt er gert ráð fyrir skilvirkum tengingum almenningssamgangna með kjöraðstæðum fyrir bíllausan lífsstíl. Við Krossamýratorg verður ein af meginstöðvum borgarlínu með lifandi borgarkjarna í nálægð við almenningsgarð á stærð við Austurvöll. Heildarfjöldi íbúða innan áfanga 1 og 2 er um 3500. Stefnt er að því að deiliskipulagsáætlanirnar fyrir Ártúnshöfða og Elliðavog fái BREEAM umhverfisvottun. Leiðarljós allrar skipulagsvinnu er að styðja við markmið borgarinnar í loftslagsmálum sem stuðla að sjálfbærri borgarþróun. Staðsetning svæðisins er einstök. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Hér er um stórt og fjölmennt hverfi að ræða. Mikilvægt er að huga að samgönguframkvæmdum svo sem Sundabraut til að létta á umferð sem mun létta verulega á aukinni umferð um Ártúnsbrekku. Þá þarf að huga að tímasetningu grunnskóla og leikskóla til að grunnþjónusta verði til staðar þegar hverfið fer að byggjast upp. Enn stendur malbikunarstöðin Höfði í vegi fyrir uppbyggingu á svæðinu og þá er óljóst hvort og hvenær áætlaðar landfyllingar verði heimilaðar. Huga þarf að framkvæmdaáætlun til að forðast misræmi í uppbyggginu hverfisins og þjónustu við íbúa.
  • Miðflokkur
    Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaá og reisa þar íbúabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Lýst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikið og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inn í miðri höfuðborg landsins. Áætlað er að reisa 8.000 íbúðabyggð í Elliðarárvogi og á Ártúnshöfða og að tæplega 100.000 fermetra atvinnuhúsnæði kynnt til sögunnar. Ekki er útfært hvaða rekstri er gert ráð fyrir á svæðinu með 1.000 – 1.500 störfum. Uppbygging atvinnurekstrar er sjálfsprottinn og getur aldrei gerst með valdboði stjórnvalds. Mikil mengun er í jarðvegi á þessu svæði – bæði olíumengun og mengun frá Malbikunarstöðinni Höfða. Engar lausnir eru í sjónmáli hvernig á að fjarlægja mengaðan jarðveg t.d. þar sem skólar eiga að koma. Öll þessi uppbygging byggir á sjálfhverfu sjónarmiði borgarstjóra og meirihlutans um borgarlínu. Komi hún ekki er uppbyggingin á svæðinu í uppnámi.
  • Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
    Umræddar landfyllingar eru ekki hluti af þeim skipulagsáætlunum nú er verið að leggja fram til auglýsingar en umhverfisáhrif þeirra og endanleg stærð verður tekin fyrir í síðari áföngum í skipulagi borgarhlutans.  Markmið borgarinnar er hér eftir sem hingað til að vernda lífríki Elliðaáa og tryggja það að fiskgengd í árnar beri ekki skaða af uppbyggingaráformum í Ártúnshöfða.  Skýrsla Hafrannsóknunarstofnunar frá mars um farleiðir laxaseiða að ósum Elliðaá styður það.
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins upplifir sig eins og gömul grammófónplata en ætlar enn og aftur að endurtaka mótmæli vegna væntanlegra landfyllinga á þessu svæði. Allt undirlag er á landfyllingu. Byggja á allt að 3500 íbúðir í 1. og 2 áfanga og  8000 íbúðum  þegar allt er komið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur  samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga. Hætta ætti því við landfyllingar á svæði 1 og 2. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins.  Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert orðið, búin til gerviveröld sem sumum þykir smart. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar með fram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Varðandi iðnaðarsvæðið þá felst breytingin í því að minnkar skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Um bílastæðin: Fækkun og 70% samnýting bílastæða er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp. Samráð þarf að vera við borgarbúa um þetta.