Furugerði 23, breyting á deiliskipulagiArkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 ReykjavíkEA11 ehf., Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík
Furugerði 23 (01.807.4)
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 78
12. ágúst, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Lögð fram umsókn Arkís arkitekta ehf. f.h. EA11 ehf. mótt. 14. desember 2017 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði. Í breytingunni felst að fjarlægja núverandi mannvirki og koma fyrir íbúðum á lóð. Nýir byggingarreitir verði skilgreindir á lóðinni sem skipt er upp í reit A og reit B og lóð sameinuð, kvöð um nýtingu lóðar fyrir götu á reit B verður aflétt o.fl., samkvæmt deiliskipulags-, skýringar- og skilmálauppdráttum Arkís arkitekta ehf. dags. 16. júlí 2020. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 19. janúar 2018 og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 28. maí 2018.
Svar

Samþykkt, með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Uppbygging í Furugerði er mjög umdeild og hefur íbúaráð Háaleitis- og Bústaða komið athugasemdum á framfæri við skipulagsráð. Þá hafa íbúar óskað eftir fundi um málið sem ekki hefur farið fram. 
  • Miðflokkur
    Fyrir fundinum liggur erindi frá íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis undir öðrum dagskrárlið og er mjög einkennilegt að þessi mál séu ekki rædd saman. Íbúaráðið lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa máls. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjur íbúaráðsins eru þó þær að byggingamagnið á reitnum er allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögun er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“ Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru forkastanleg.
  • Flokkur fólksins
    Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir liggur einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta skipulag?