Hverfisskipulag - leiðbeiningar, breytingar kynntar
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 115
29. september, 2021
Annað
Fyrirspurn
Lögð fram til kynningar tillaga að breytingu á leiðbeiningum um gerð hverfisskipulags hvað varðar fjölgun íbúða, dags. 31. maí 2021. Tillagan var auglýst frá 29. júní 2021 til og með 31. ágúst 2021. Engar athugasemdir bárust.
Svar

Kynnt

Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Markmið með leiðbeiningum er að skapa ramma um fjölgun íbúða innan lóða. Hægt er að fjölga íbúðum með viðbótum innan lóðar, uppskiptingu stærri íbúða eða endurnýtingu rýmis eins og atvinnuhúsnæðis eða bílageymslu. Með leiðbeiningunum fylgja gátlistar sem hægt er að styðjast við. Þetta er jákvætt skref í frjálsræðisátt og við fögnum þessu.
  • Miðflokkur
    Hér er verið að opna pandórubox. Það hafa verið mjög strangar reglur í sambandi við hverslags breytingar á húsnæði sem fólk á og hafa þær verið mjög kostnaðarsamar vegna kerfiskostnaðar. Borgarfulltrúi Miðflokksins er mjög hlynntur því að fólk geti breytt skipulagi sínu innanhúss og búið til fleiri íbúðir ef húsnæðið er stórt. Til að slíkt virki þá þarf viðkomandi íbúð/íbúðir að fá nýtt fastanúmer til að gilda inn í lánamat fjármálastofnana. Þessar tillögur opna á mikið rask í grónum, fullbyggðum hverfum með tilheyrandi bílastæðisvanda. Allt ber að sama grunni – þetta er stefna meirihlutans að þéttingu byggðar í sveitarfélagi sem á gnótt landsvæðis sem gæti leitt til hraðrar uppbyggingar á hagkvæmu og fjölbreyttu húsnæði og er eingöngu til þess fallið að halda fasteignaverði í botni.
  • Flokkur fólksins
    Rýmri heimildir til stærðar aukaíbúða í einbýlishúsum ber að fagna. Heimilt verður að gera aukaíbúð í einbýlishúsi sem reyndar hefur sennilega alltaf verið leyfilegt svo það er ekkert nýtt. Þetta er framhald af heimild um að gera viðbyggingar við hús og ofanábyggingar en ekki má þó byggja nýtt hús á lóð. Þetta er án efa allt gott mál utan bílastæðamálin. Fyrir aukaíbúðir sem tilheyra sama matshluta og aðalíbúð eru viðbótar bílastæði ekki heimiluð. Þetta þykir mörgum mikill galli. Þegar um er að ræða séríbúðir í fjölbýlishúsum fylgir aðeins eitt bílastæði. Fjöldi bílastæða á lóð má þó aldrei verða meiri en sem nemur einu stæði fyrir hverja íbúð og skulu ný bílastæði  vera í beinum tengslum við stæði sem fyrir eru. Ekki er heimilt að fjölga innkeyrslum að lóðinni. Þetta eru flókið og stíf skilyrði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki þurfi einnig að horfa til hjólastíga og gatna í þessu sambandi? Hjólastígar eru víða ekki þess legir að hægt sé að nota þá sem alvöru samgönguæðar. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar t.d. í Breiðholti sem virka sem göngustígar en  engan veginn sem hjólastígar.