Fyrirspurn
Lagt fram erindi Skipulagsstofnunar dags. 15. og 20. mars 2019 þar sem kynnt er lýsing dags. í mars 2019 fyrir gerð Landsskipulagsstefnu. Kynningartími er til 8. apríl 2019.
Kynnt.
Fulltrúi Pírata, fulltrúar Samfylkingarinnar og fulltrúi Viðreisnar bóka:
Skipulags- og loftslagsmál eru bundin órjúfanlegum böndum enda skiptir skipulag höfuðmáli í baráttunni gegn neikvæðum loftslagsáhrifum. Tækifæri til breytinga á ferðavenjum, til að draga úr losun, eru almennt mun meiri í þéttbýli en í dreifbýli og líklega meiri í stærra þéttbýli en minna þéttbýli. Í stærri borgarsvæðum eru jafnan meiri möguleikar á að byggja upp afkastamiklar hágæða almenningssamgöngur en á minni þéttbýlissvæðum. Í ljósi vægis höfuðborgarsvæðisins, horft til byggðar á landinu öllu, sem birtist meðal annars í því að um helmingur bílumferðar (ekin vegalengd) á Íslandi er innan höfuðborgarsvæðisins, er mikilvægt að horfa sérstaklega á þetta eina borgarsvæði landsins þegar rætt er um markmið í loftslagsmálum._
Fulltrúar meirihlutans í skipulags- og samgönguráði vilja því koma á framfæri nauðsyn þess að Landsskipulagsstefna ávarpi mikilvægi þéttingu byggðar og þá sérstaklega í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.