Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 106
2. júní, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, endurskoðun stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og tæknileg uppfærsla Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040. Eftirfarandi eru gögn sem fylgja málinu og eru hér lögð fram; 1. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Megin markmið um þróun byggðar og bindandi ákvæði um landnotkun, byggingarmagn, þéttleika og yfirbragð byggðar, grænt hefti, tillaga, dags. maí 2021.  2. Þéttbýlisuppdráttur, 1:20.000, tillaga dags. í maí 2021. 3. Sveitarfélagsuppdráttur, 1: 50.000, tillaga dags. í maí 2021. 4. Umhverfisskýrsla: Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Endurskoðuð stefna um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til 2040 (B3), dags. í janúar uppf. í maí 2021, VSÓ-ráðgjöf. 5. Reykjavík 2040. Lýsing helstu breytinga og forsendur (B1), blátt hefti, dags. í maí 2021. 6. Forsendur og áherslur sem samþykktar voru með AR2010-2030. Ítarefni og skýringargögn (B2). Kaflar merktir  B2. Borgin við Sundin, B2. Skapandi borg, B2. Græna borgin, B2. Vistvænni samgöngur, B2. Borg fyrir fólk og B2. Miðborgin.  7. Skipulagsstofnun, umsögn dags. 20, maí 2021. 8. Minnisblað umhverfis- og skipulagssvið, dags. 28. maí 2021.
Svar

Samþykkt að auglýsa aðalskipulagstillögu, skv. 31. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, og öðrum fylgiskjölum, með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 10:31 víkur Þórdís Pálsdóttir af fundi.
  • - Kl. 10:31 tekur Örn Þórðarson sæti á fundinum.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Aðalskipulagið 2010-2030 markaði tímamót í skipulagssögu borgarinnar. Horfið var frá bílmiðuðum hugmyndum seinustu aldar og stefnan sett á þétta, mannvæna, nútímalega borgarbyggð þar sem virkir samgöngumátar eru í fyrirrúmi. Með tillögunum nú er lagt til að aðalskipulagið sé framlengt og uppfært til ársins 2040. Ný viðmið eru sett um þéttleika, gæði og yfirbragð byggðar og skipulagið fléttað við húsnæðisáætlun og loftslagsstefnu borgarinnar. Rými er skapað fyrir Borgarlínu og stokka. Hér er áfram haldið á braut sjálfbærrar borgarþróunar og áhersla lögð á þéttingu byggðar innan vaxtarmarka. Við styðjum þessar tillögur heilshugar.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Nauðsynlegt er að íbúðaframboð sé fullnægjandi og raunsætt á tímabilinu. Ef spá um kröftugan vöxt rætist er árleg þörf talin 1.210 íbúðir ári til 2040, eða 24.200 íbúðir. Að óbreyttu mun þessi tala ekki nást og húsnæðisverð í Reykjavík því áfram undir þrýstingi vegna skorts á fjölbreyttu framboði bygginga. Áhyggjur vekur að ekki er áformað að heimila uppbyggingu á Keldum fyrr en eftir áratug. Ekki er gert ráð fyrir íbúðum í Örfirisey né á BSÍ reit. Hætta er því á að áfram skorti hagkvæma reiti til fjölbreyttrar húsnæðisuppbyggingar og óvissa um uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þá er beinlínis gengið út frá því að yfir 4.000 íbúðir verði byggðar á skipulagstímanum þar sem flugbrautir Reykjavíkurflugvallar eru, en í athugasemdum Skipulagsstofnunar er bent á ekki liggur fyrir ákvörðun af hálfu ríkisins að leggja af flugvöll í Vatnsmýri. Það er með öðrum orðum gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á þúsundir íbúða. Þá er gengið á græn svæði og gert ráð fyrir fjögurra hæða húsum efst í Laugardalnum upp á 30.000 m2 á reit M2g. Tillagan gerir ekki ráð fyrir sveigjanleika hvað varðar notkunarheimildir atvinnuhúsnæðis. Undanfarin ár hafa sýnt hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Af þessum sökum öllum leggjumst við gegn þessum viðauka.
  • Miðflokkur
    Skipulagsstofnun gerir fjölmargar athugasemdir við þessar breytingar. Áætlað er að íbúðarbyggð og blönduð byggð rísi innan vaxtarmarka til ársins 2040. 80% nýrra íbúða til 2040 verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu og 80% nýrra íbúða verði í grennd við öflugan atvinnukjarna. 90% nýrra íbúða á að byggja á röskuðum eða þegar byggðum svæðum. Hér er verið að boða massíva þrengingarstefnu enda telur  Skipulagsstofnun telur að vissa hættu á því að gengið verði of langt í þéttingu byggðar. Ljóst er að ef 80% nýrra íbúða verði á áhrifasvæði svokallaðrar borgarlínu þá þýðir það rosalega röskun í rótgrónum hverfum með tilheyrandi álagi á umhverfið og íbúana. Það er sláandi að ekki er gert ráð fyrir frekari úthlutun lóða í úthverfum Reykjavíkur þar sem möguleiki væri á stórkostlegri uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki á förum næstu áratugi en samt er gert ráð fyrir 4.000 íbúða byggð þar í þessum áformum. Skipulagsstofnun bendir á að ekki liggi fyrir ákvörðun af hálfu ríkisins um að færa miðstöð innanlandsflugs og leggja af flugvöllinn. Því má segja að þessar breytingar byggi á mjög veikum grunni.
  • Flokkur fólksins
    Ekki er hægt  að koma öllum athugasemdum fyrir í stuttri bókun við viðamikla skýrslu. Sársaukafyllst er hve mikið er gengið á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. með landfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til að þétta en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni. Hreinsistöð Veitna við Klettagarða krefst t.d. landfyllinga nú og meira í framtíðinni.  Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmt sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. Ábendingar hafa komið um að þétting byggðar leiði til dýrari íbúða en ella og samræmist það ekki stefnu um hagkvæmt húsnæði. Vakin er athygli á húsnæðisþörf fólks á aldri yfir 67 ára. Búa þarf til  fleiri  kjarna byggðar, sbr. Sléttuvegur, þar sem íbúðir njóta nálægðar við ”þjónustusel”. Gengið er út frá því sem vísu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og yfir á Hólmsheiði. Er það ekki frekar bratt að ganga út frá því á þessum tímapunkti? Hér er ekki hægt að tala um nein tímamót enda rennt með margt blint í sjóinn og margt  er mjög umdeilt.