Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 42
3. júlí, 2019
Annað
Fyrirspurn
Lögð er fram lýsing skipulagsfulltrúa, dags. 28. júní 2019, vegna nýs deiliskipulags fyrir Laugaveginn sem göngugötu sem er í samræmi við samþykkt Borgarstjórnar Reykjavíkur. Markmið og tilgangur er að skipuleggja varanlegar göngugötur á Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg. Unnið er samhliða því að forhönnun og undirbúningi í samráði við hagsmunaaðila. Ákveðið verður í framhaldinu hvort unnið verði eitt heildstætt skipulag fyrir götukaflana, eða svæðið bútað niður í áfanga. Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að lýsingu dags. 28. júní 2019 samþykkt. Samþykkt að kynna framlagða lýsingu fyrir eftirfarandi aðilum: Skipulagsstofnun, Samtökin Miðborgin Okkar, Miðbæjarfélagið , Minjastofnun Íslands Borgarsögusafn Reykjavíkur, OR/Veitur, Öryrkjabandalagið, Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins, Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu og einnig fyrir þeim aðilum sem nefndir eru í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Vísað til borgarráðs.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylking, Viðreisn, Píratar
    Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð mikilvægt leiðarstef, þannig hefur það verið hingað til og verður áfram. Sem dæmi má nefna opið samráð í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 28. janúar til 3. febrúar og opinn samráðsfund með veitingafólki, verslunarrekendum, ferðaþjónustu- og vöruflutningaaðilum. Þá á borgin í reglulegu og góðu samtali við Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagsmunafélög auk þess sem á vegum borgarinnar starfar öflug aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Einnig er vert að benda á að í maí var tilkynnt að aðgengisfulltrúar ÖBÍ muni á næstunni gera úttekt á aðgengismálum fatlaðra á ýmsu stöðum í borginni, þar með talið á Laugavegi.
  • Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs verði kynnt þannig að umsagnaraðilar, rekstraraðilar og íbúar geti komið athugasemdum sínum á framfæri. Rétt væri að fleiri aðilar fengju að vera formlegir umsagnaraðilar en eru taldir upp. Má hér nefna Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur og Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra. Verslun og þjónusta á mjög undir högg að sækja í Reykjavík meðal annars vegna þess að fasteignaskattar hafa hækkað gríðarlega. Mikilvægt er að breytingar á rekstrarumhverfinu eins og þessi tillaga felur í sér fái ítarlega og sanngjarna skoðun og umsögn þeirra sem málið varðar áður en hún kemur til samþykktar. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
    Miðflokkurinn harmar að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila við ákvörðunartöku um að varanlegar göngugötur. Yfirlýsing borgarstjóra á fundi borgarstjórnar 4.sept. síðastliðin um að Laugavegur skyldi verða göngugata frá Hlemmi vekur sérstaka eftirtekt, enda myndi slíkt þýða að aðkoma að 200 stæða bílastæðahúsi Bílastæðasjóðs borgarinnar myndi lokast. Gerræðislegar yfirlýsingar sem þessi eru ekki merki um að samráð og sátt sé ofarlega á baugi hjá borgarstjóra enda hefur nú verið ákveðið að svara í engu fjölda athugasemda og undirskriftalistum er málið varða. Því ber þó að fagna að hér er dregið í land með lokun Laugavegs frá Hlemm og að efsti punktur lokunar verði Barónstígur. En hversu lengi varir það? Hvar endar sú gerræðisför sem hér er haldið í? Sá misskilningur virðist hrjá borgarstjóra að í síðustu kosningum hafi hann fengið umboð kjósenda til að framfylgja vilja sínum.Svo er ekki, hann fékk umboð til að framfylgja vilja kjósenda. Fáum upp á borðið hver vilji þeirra er áður en lengra er haldið.Krafan er að raunverulegt samráð verði haft við hagsmunaaðila og íbúa. Það er farsæl leið, það er rétt leið.Miðflokkurinn hefur ekkert á móti göngugötum, en setur kröfu um að slíkt sé gert í sátt og samráði.
  • Sjálfstæðisflokkur
    -    Kl. 11:14 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi. -    Kl. 11:16 tekur Valgerður Sigurðardóttir sæti á fundinum. Þá var búið að afgreiða erindi nr. 16.
  • Flokkur fólksins
    Það er alveg ljóst að verulegur meirihluti rekstraraðila er á móti lokunum samkv. könnun sem Zenter og Miðborgin okkar lét gera og Samtök verslunar og þjónustu fjármagnaði. Sú niðurstaða er áfall fyrir Miðborgina Okkar og meirihlutann í borgarstjórn. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð þeirra. Ætlar Miðborgin Okkar að standa með rekstraraðilum og berjast gegn lokunum eða vera fjarðstýrð strengjabrúða sem er stjórnað frá Ráðhúsinu sem fjármagnar félagið að mestu leiti gegnum styrki? Þá liggja frammi undirskriftir 247 rekstraraðila á Laugavegi, Skólavörðustíg, Bankastræti og allra næsta nágrenni þar sem yfir 90% rekstraraðila mótmæla lokunum. Flokkur fólksins veit til þess að ekkert samráð hefur verið haft við einn einasta af þessum 247 andmælendum. Þannig að allar lokanir eru gerðar í mikilli andstöðu við rekstraraðila og á þá ekki hlustað enda eru engar rekstralegar forsendur fyrir lokunum. Lokanir hafa skaðað flesta samkvæmt því sem þessir aðilar segja. Samkvæmt könnun Zenter mun viðskiptavinum miðborgarinnar fækka um að minnsta kost 25% ef lokað verður allt árið. Verslunin má ekki við því að missa þá.