Línbergsreitur, Grandagarði, breyting á deiliskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 84
14. október, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram að nýju umsókn ASK Arkitekta ehf., dags. 5. september 2019, varðandi breytingu á deiliskipulagi Örfiriseyjar - Vesturhafnar vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og nr. 39-93 við Grandagarð. Í breytingunni felst að skipta svæðinu upp í fimm lóðir, niðurrifi eldri bygginga og byggingu nýrra og hærri húsa eða 2-4 hæðir ásamt byggingu bílastæðahúss fyrir um 300 bíla, samkvæmt uppdráttum ASK Arkitekta ehf. dags. 18. ágúst 2018. Einnig er lögð fram húsakönnun fyrir Örfirisey og Granda dags. 2009, minnisblað teiknistofunnar Stiku dags. 28. maí 2019, minnisblað Eflu dags. 20. júní 2019, tvær skýringamyndir teiknistofunnar Stiku ódags., og kynningarhefti ASK Arkitekta ehf. dags. 5. september 2019. Jafnframt er lögð fram drög að viljayfirlýsingu dags. í júní 2019, umsögn Faxaflóahafna sf. dags. 17. september 2019, bréf Faxaflóahafna sf. dags. 20. september 2019 og minnisblað Faxaflóahafna fs. dags. 25. maí 2020. Tillagan var auglýst frá 17. júlí 2020 til og með 31. ágúst 2020. Eftirfarandi sendu inn athugasemdir/umsögn: Veitur dags. 31. ágúst 2020. Einnig lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. október 2020.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. október 2020.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Bókanir og gagnbókanir
  • Sjálfstæðisflokkur
    Enn eru engar íbúðir leyfðar í Örfirisey, þrátt fyrir að kjöraðstæður séu til staðar hvað varðar verslun og þjónustu sem væri þá í göngufæri fyrir íbúa. Betra jafnvægi í umferð næst með því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vestri. Hér er verið að fara í aðra átt. Þá er mikilvægt að framfylgja þeirri stefnumörkun borgarráðs að minnka umfang olíubirgðastöðvarinnar um helming fyrir 2025.
  • Miðflokkur
    Þeirri uppbyggingu sem hér er kynnt er fagnað en borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir miklum áhyggjum af því andvaraleysi sem virðist ríkja gagnvar olíutönkunum í Örfirisey. Þeir eru tifandi tímasprengja. Sífellt er verið að færa byggðina nær tönkunum/hættusvæðinu og öllum má vera ljóst hvað gerist ef eldur verður laus og/eða eitthvert óhapp verður sem leiðir til þess að tankarnir springa í loft upp. Í leiðinni er rétt að geta þess að sömu áhyggjum er lýst yfir vegna gríðarlegra olíuflutninga frá svæðinu á þröngum götum Reykjavíkur og þá sérstaklega í gegnum þrönga Geirsgötu og sífellt er verið að þrengja götur og aðgengi bíla í gegnum miðbæinn. Það er látið eins og þessi hætta sé ekki til staðar og hún er aldrei rædd. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi en varpar ljósi á að rýmingaráætlun fyrir Reykjavík vestan Elliðaáa er í algjöru skötulíki.