Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi - R19070109
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Málsaðilar
Skipulags- og samgönguráð nr. 77
1. júlí, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi á athafnarsvæðinu við Esjumela á Kjalarnesi. Í breytingunni felst helst að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöðina Höfða þar sem fyrirtækið hyggst starfsemi sína á Esjumela. Felldar eru niður aðrar 12 lóðir og sameinaðar í eina stóra, sett eru ákveðin skilyrði fyrir lóðina og fylgir m.a. mat á umhverfisþáttum breytingar með tillögunni. Einnig eru nokkrar lóðir sem skilgreindar voru fyrir dreifstöðvar OR felldar út og möguleiki gefinn á að stækka aðliggjandi lóðir, auk þess er gerð breyting á lóðarstærð við Silfursléttu o.fl., samkvæmt uppdr. Landmótunar sf. dags. 22. október 2019 síðast br. 25. mars 2020. Tillagan var auglýst frá 30. janúar 2020 til og með 12. mars 2020. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir/umsögn: Mosfellsbær dags. 28. febrúar 2020 og 13. maí 2020, Andlegt þjóðarráð bahá´ía á Íslandi  dags. 12. mars 2020 og Veitur dags. 12. mars 2020. Einnig er lagður fram tölvupóstur Umhverfisstofnunar dags. 17. febrúar 2020 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. júní 2020.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. júní 2020.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 11:42 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi.
  • - Kl. 11:43 tekur Sara Björg Sigurðardóttir sæti á fundi.
Bókanir og gagnbókanir
  • Flokkur fólksins
    Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst  starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda  varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði.  Hér er verið að  búa til stóra lóð  undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn?. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.
  • Miðflokkur
    Í samvinnusáttmála meirihlutans kemur fram að selja eigi Malbikunarstöðina Höfða og var það stefnumál Viðreisnar í kosningabaráttunni. Það er hreint með ólíkindum að Reykjavíkurborg/útsvarsgreiðendur skuli þurfa að standa straum að því að byggja upp nýja malbikunarstöð þar sem hún er úrelt og ónýt. Að auki framleiðir hún mjög gallað malbik sem ekki stenst gæðakröfur. Allir vita hvernig fór með uppbyggingu á GAJA verksmiðjunni sem ráðist var í að byggja og fór það verk langt, langt fram úr öllum kostnaðaráætlunum. Þá sagði meirihlutinn – við erum að byggja svona stöð í fyrsta sinn og kunnum ekki til verka, út af því fór kostnaðurinn úr böndunum. Þvílík rök!!! Meirihlutinn hefur heldur ekki byggt malbikunarstöð áður – við vitum hvernig þetta fer. Mosfellsbær hefur sett sig mjög á móti þessum áformum, ekkert er hlustað á rök þeirra. Það er fáránlegt að á þessu litla iðnaðarsvæði skuli vera tvær malbikunarstöðvar sér í lagi þegar kynningar um breytingar á deiliskipulagi á þessu svæði gengu allar út á léttan iðnað. Malbikunarstöð er grófur mengandi iðnaður. Esjumelar eru undir Esjurótum eins vinsælasta útivistarsvæðis stór höfuðborgarsvæðisins og þessi áform eru aðför að útivistarfólki. Lýst er yfir miklum áhyggjum af þessu máli.