Laugardalur - austurhluti, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 101
28. apríl, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulaginu "Laugardalur - austurhluti" vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar leitast eftir að koma fyrir smáhýsum á völdum stöðum í borginni sem búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga sína. Í breytingunni felst að koma fyrir allt að 5 smáhýsum á nýrri lóð, samkvæmt uppdr. Trípólí arkitekta dags. 28. janúar 2020.
Svar

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir, greiða atkvæði gegn tillögunni og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, situr hjá.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Umrædd smáhýsi eru hluti af hugmyndafræði 'Húsnæði fyrst' á vegum Velferðarsviðs og hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið í heimilisleysi og hefur miklar þjónustuþarfir. Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tímabundin í staðsetningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalarheimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera nálægt þeirri þjónustu og samfélagsinnviðum sem borgarbúar þurfa að nýta. Ekki er auðvelt ná sátt um staðsetningu þeirra í íbúðabyggð eða blandaðri byggð, og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu innviði á öðrum skipulagssvæðum. Hér er um að ræða opið svæði, en samkvæmt gildandi aðalskipulagi er heimild til að koma fyrir slíkum búsetuúrræðum á slíku svæði. Þó ber að hafa í huga að þau eru víkjandi og hafa ekki áhrif á langtímanotkunarmöguleika svæðisins. Fulltrúar meirihlutans telja að nálægð við útivistarsvæði, almenningssamgöngur og samfélagsinnviði muni hafa jákvæð áhrif á þau sem þar munu koma til með að búa og vona að hverfið taki vel á móti þeim.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Mikilvægt er að taka á vanda húsnæðislauss fólks með raunhæfum og góðum lausnum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Laugardalurinn fái að vera í friði fyrir íbúðaáformum, hvort sem um er að ræða smáhýsi eða stórhýsi.
  • Miðflokkur
    Skipulagsstofnun hefur gert alvarlegar formgalla athugasemdir um að smáhýsi í Laugardal samrýmast ekki aðalskipulagi. Í bréfi stofnunarinnar til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segir orðrétt: „Deiliskipulagsbreytingin er í ósamræmi við gildandi aðalskipulag varðandi heimild fyrir íbúðir á opnum svæðum og í borgargörðum. Aðalskipulagsbreyting um sérstakt búsetuúrræði (sbr. svar skipulagsfulltrúa við athugasemdum varðandi samræmi við aðalskipulag) var ekki auglýst áður en samhliða deiliskipulagsbreytingunni sbr. 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“ Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur frá upphafi ítrekað að þessi smáhýsa uppbygging utan skipulags gangi ekki upp samkvæmt lögum. Nú er komin staðfesting á þeim skoðunum. Smáhýsin í Gufunesi voru utan deiliskipulags um langa hríð allt þar til ákveðið var að leggja göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu. Þá var þeim laumað inn á skipulag bakdyramegin. Sama á við nú varðandi smáhýsin í Laugardalnum eftir ábendingar Skipulagsstofnunar. Borgarstjóri og meirihlutinn rökstyðja ákvarðanir um smáhýsin svo að um tímabundna lausn sé að ræða. Það er rangt því steypa þurfti sökkla undir húsin í Gufunesi og skeyta þau við landið. Skilgreining á fasteign er eftirfarandi: "Fasteign merkir afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt.“ Hér er því ekki verið að tjalda til einnar nætur.