Frakkastígur - Skúlagata, breyting á deiliskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 90
2. desember, 2020
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg - Skúlagata, varðandi fyrirhugaða nýbyggingu við Frakkastíg 1. Um er að ræða endurskoðun á gildandi deiliskipulagi og með þessari breytingu fellur því úr gildi eldra skipulag sem var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur þann 7. júní 2018, samkvæmt uppdr. VA arkitekta ehf. dags. 2. apríl 2020 br. 16. nóvember 2020. Tillagan var auglýst frá 20. maí 2020 til og með 1. júlí 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Benóný Ægisson f.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur dags. 30. júní 2020 og Björgvin Þórðarson hrl. hjá Atlas lögmönnum ehf. f.h. húsfélagsins að Skúlagötu 20, dags. 30. júní 2020. Einnig er lögð fram umsögn Veitna dags. 1. júní 2020, umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 2. júlí 2020 og 10. nóvember 2020 og fornleifaskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 206, dags. 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember 2020.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 13. nóvember 2020.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Fulltrúar meirihlutans þakka kynningu á málinu. Með þeim breytingum sem hér hafa verið gerðar á deiliskipulagi er komið til móts við umsagnir um málið að því marki sem mögulegt er. Sérstaklega hefur verið skerpt á ákvæðum sem snúa að minjavernd og fornleifaskráning verið framkvæmd á lóðinni við Skúlagötu og Frakkastíg 1. Efstu tvær hæðir fyrirhugaðrar byggingar á lóð við Frakkastíg 1 verða inndregnar og er það rökstutt í tillögunni. Fulltrúarnir leggja áherslu á að við hönnun bygginga verði hugað vel að því að hús falli vel að hverfismynd og umhverfi sínu.
  • Flokkur fólksins
    Fulltrúi Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna ÍMR sem stendur gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt riss –teikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar (ÍMR) um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn ÍMR leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og “hugsanlegri dagvistun”. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar “öndunaropi” en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar. Það er auðvitað óþarfi að ganga með “þéttingu byggðar” út í slíkar öfgar að stoppa þurfi í hvert gat/bil með byggingu. Ef heldur sem horfir mun hvergi sjást til sjávar úr borginni áður en yfir lýkur. Fyrir augum verður aðeins steypa hvert sem litið er.