Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Stefna um íbúðarbyggð, breyting á aðalskipulagi
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 4 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 91
16. desember, 2020
Samþykkt
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júní 2020 uppf. 27. nóvember 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar stefnu um íbúðabyggð. Breytingin tekur til eftirfarandi reita, sem verða skilgreindir sem sérstakir byggingarreitir, sbr. stefnu um íbúðabyggð, sem sett er fram á mynd 13 í kaflanum Borgin við Sundið: Arnarbakka, Eddufells-Völvufells, Rangársels, Háaleitisbrautar-Miklubrautar, Furugerðis-Bústaðavegar og Vindáss-Brekknaáss. Einnig er lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 3. september 2020. Tillagan var auglýst frá 16. september 2020 til og með 28. október 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis dags. 28. ágúst 2020, Ingibjörg Halldórsdóttir hjá Lands lögmönnum f.h. Kristins Ziemsen, Helgu Helgadóttur, Láru Áslaugu Sverrisdóttur og Jóns Höskuldssonar dags. 31. ágúst 2020, íbúaráð Breiðholts dags. 8. september 2020, Mosfellsbær dags. 28. september 2020, íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis dags. 1. október 2020, Kópavogsbær dags. 8. október 2020, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 21. október 2020, Helga Helgadóttir og Kristinn Zimsen dags. 26. október 2020 og Vegagerðin dags. 28. október 2020. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 11. desember 2020.
Svar

Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata sbr. 1. og 2. mgr. 32 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

Gestir
Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðalskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Bókanir og gagnbókanir
  • Samfylkingin, Viðreisn, Píratar
    Við styðjum þær breytingar á aðalskipulagi sem miða að þéttingu og þróun byggðar á sex stöðum í borginni. Flestar athugasemdir snúa að Furugerði þar sem til stendur að reisa lágreista 2 hæða byggð auk raðhúsa. Við styðjum uppbyggingu á viðkomandi reit en nánari útfærsla bíður vinnslu deiliskipulags.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Ástæða er til að hlusta betur á sjónarmið íbúa, ekki síst vegna mögulegra breytinga við Furugerði. Við getum því ekki stutt þessa tillögu. Hér er verið að samþykkja almennar heimildir í aðalskipulagi, en enn er mögulegt að takmarka þær og útfæra betur í deiliskipulagi áður en framkvæmdir eru heimilaðar.
  • Miðflokkur
    Íbúar í Furugerði og Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis hafa miklar áhyggjur af framvindu uppbyggingaráforma við Furugerði. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum því nú þegar er takmarkað magn bílastæða og einnig eru áhyggjur af hljóðvist. Íbúaráðið bendir á fleiri þætti s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjurnar eru þó þær að byggingamagnið á reitnum verði allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítils háttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögunni er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“ Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru síður en svo til fyrirmyndar – ekkert tillit er tekið til athugasemda.
  • Flokkur fólksins
    Ein af breytingartillögum sem hér er lögð fram snýr að Arnarbakkanum. Stækka á núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit fyrir íbúðarbyggð. Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur fram hjá skóla og er þröngur. Í því standi sem hann er nú ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum. Staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum. Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess. Bent er á að hjólastígar eiga að fylgja hæðarlínum eins og unnt er. Allt of oft þeir lagðir upp og niður brekku og stundum  þannig að kröpp beygja er við enda brekku, sem er afleitt fyrir hjólreiðafólk.