Breiðholt I, Bakkar, breyting á deiliskipulagi vegna Arnarbakka
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 108
23. júní, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna Arnarbakka. Breytingin felst í heimild til niðurrifi á núverandi verslunar og þjónustuhúsnæði í Arnarbakka 2-6, uppbyggingu námsmannaíbúða með verslunar- og þjónusturýmum að hluta til á 1. hæð auk íbúðarhúsnæðis á grænni þróunarlóð, gróðurhúss og endurbætur á grænu svæði, samkvæmt uppdr. BASALT arkitekta ehf. dags. 9. júní 2021. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 26. júní 2020 og samgöngumat Mannvits dagsett 9. júní 2021. 
Svar

Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu.Vísað til borgarráðs.

Gestir
Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Komur og brottfarir
  • - Kl. 9:21 tekur Daníel Örn Arnarsson sæti á fundinum.
Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Í Arnarbakka er fyrirhugað að reisa um fyrir 90 íbúðir, jafnt almennar íbúðir sem námsmannaíbúðir í þremur fjölbýlishúsum. Áfram verður gert ráð fyrir þjónustu og verslun á jarðhæð sem mun eflast með fleiri íbúum í nágrenninu. Að auki er ráðgert að koma fyrir matjurtagarði í glerhúsum til almennra nota á svæðinu. Mikilvægt er að huga að því að hjólastæði séu staðsett sem mest á jarðhæðum og við innganga til að tryggja gott aðgengi.
  • Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 
    Borgin keypti gamlan verslunar- og þjónustukjarna við Arnarbakka fyrir þremur árum síðan fyrir hálfan milljarð króna og stóð þá til að „efla hverfiskjarnann við Arnarbakka, bæta þjónustu og standa að samfélagslegri uppbyggingu á reitnum.“ Stefnt var að því að „úrsérgengnir verslunarkjarnar yrðu endurlífgaðir“. Lítið hefur gerst á kjörtímabilinu í þessum efnum. Nú stendur til að rífa þjónustukjarnann sem keyptur var og byggja fjölbýlishús í staðinn. Þó mikil þörf sé fyrir íbúðir í borginni skýtur það skökku við að fallið sé frá upphaflegum áformum um að endurlífga verslunar- þjónustukjarnann og leggja þess í stað höfuðáherslu á íbúðablokkir.
  • Flokkur fólksins
    Óraunhæf bjartsýni er í gögnum - skýrslunni, sérstaklega um umferð og bílastæði. Sagt er að aðkoma að Arnarbakka 2-4  sé  góð og  áfram verði hægt að keyra snúningssvæðið við Breiðholtsskóla. Þetta er hæpin fullyrðing því að við uppbyggingu íbúða mun umferð vaxa, (65 stúdentaíbúðir,  + 25 venjulegar íbúðir  + athafnasvæði í neðstu hæðum)  meðfram Breiðholtsskóla. Í gögnum  er áætlað  að bílferðum fækki  um 15% sem er ekki raunhæft? Alls endis óvíst er hvort deilibílanotkun nái flugi hér eins og í erlendum borgum. Einnig er sagt að árið 2019 var hlutfall bílferða 74%, hjólreiða 5%, gangandi 14%, almenningssamgöngur 5% og annað 2%. Með því að fækka bílferðum um 15%  fyrir 2040  er áætlað að hlutfall gangandi og hjólandi verði 25%. Er ekki verið að ofáætla hér?  Byrja þarf á réttum enda t.d. byrja á að gera göngu- og hjólastíga þannig að þeir beri umferð fleiri farartækja og sjá hvort það dragi úr bílanotkun. Ef það gengur vel er alltaf hægt að fækka bílastæðum eftir á. Taka má undir að Arnarbakki 2 og 4 hafi lítið varðveislugildi. Nýta má svæðið mun betur en nú er gert. Almenningssvæði á jarðhæðum og íbúðir á efri hæðum er ágæt stefna en framtíðarspár um umferð verða að vera raunhæfar.