Breiðholt I, Bakkar, breyting á deiliskipulagi vegna Arnarbakka
Síðast tekið fyrir á fundi fyrir 3 árum síðan.
Skipulags- og samgönguráð nr. 121
24. nóvember, 2021
Vísað til borgarráðs
Fyrirspurn
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna Arnarbakka. Breytingin felst í heimild til niðurrifi á núverandi verslunar og þjónustuhúsnæði í Arnarbakka 2-6, uppbyggingu námsmannaíbúða með verslunar- og þjónusturýmum að hluta til á 1. hæð auk íbúðarhúsnæðis á grænni þróunarlóð, gróðurhúss og endurbætur á grænu svæði, samkvæmt uppdr. BASALT arkitekta ehf. dags. 9. júní 2021. Einnig er lögð fram húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 26. júní 2020 og samgöngumat Mannvits dagsett 9. júní 2021. Tillagan var auglýst frá 7. júlí 2021 til og með 31. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Guðmundur Svafarsson dags. 21. júní 2021, Veitur dags. 18. ágúst 2021. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. október 2021.
Svar

Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 7. október 2021.Vísað til borgarráðs.

Bókanir og gagnbókanir
  • Viðreisn, Samfylkingin, Píratar
    Í Arnarbakka er fyrirhuguð uppbygging 90 íbúða, námsmannaíbúða sem og almennra íbúða sem og þjónusturýmis á jarðhæð. Að auki er gert ráð fyrir gróðurhúsum og matjurtagörðum. Hér er um að ræða jákvæða uppbyggingu sem mun lífga upp á þennan gamla hverfiskjarna.
  • Sjálfstæðisflokkur
    Það er löngu tímabært að efla þjónustukjarna við Arnarbakka, en langt er liðið síðan borgin fjárfesti í húsnæði á þessu svæði. Mikilvægt er að vinna að hugmyndum sem bæta þjónustu við íbúa, en gæta þarf að því að næg bíla- og hjólastæði verði í endanlegum hugmyndum.
  • Flokkur fólksins
    Breytingar Breiðholt 1, Bakkar. Svæðið við Arnarbakka 2 er svæði sem hægt er að gera að góðri íbúðabyggð. Núverandi byggingar eru ekki varðveisluverðar. Hér er því hægt og mikilvægt að vanda til verka og reisa byggingar sem eru  fallegar, áhugaverðar og á góðum stað. Hönnun þessa svæðis ætti að setja í  samkeppni. Skýra þarf hvernig umferðarmálin munu verða. Eins og er, er ljóst að Arnarbakkinn, framhjá Breiðholtsskóla, ber ekki miklar umferð. Þarna getur stefnt í þrengsli ef ekki er að gætt.